Heimsveldi í fjöllunum? Illugi Jökulsson skrifar 22. nóvember 2015 11:00 Í meira en þrjátíu og fimm ár hef ég horft á fréttamyndir frá Afganistan og aldrei hef ég séð á þeim svo mikið sem stingandi strá. Grá fjöll grjóthrúgur, í hæsta lagi leirlitur sums staðar á söndunum, skraufþurr óhroðinn blæs út úr þessum myndum í augu okkar, hvergi er neitt grænt, ekki einu sinni gulnað strá. Og fólkið alltaf klætt í hólkvíð föt til að standa af sér gróðurvana vindinn. Þannig eru allar fréttamyndir frá Afganistan sem ég man eftir þessa áratugi. Og maður hugsar með sér, um hvað er eiginlega verið að berjast, eftir hverju er að sækjast í þessari hrjóstrugu eyðimörk? Nú skilst mér að vísu að einhvers staðar sé gróður í Afganistan, stundum berast fréttir af því hvernig valmúinn hafi sprottið í ár og hverju megi þá búast við á eiturlyfjamörkuðum heimsins næstu misserin – en það er líka eiginlega allt og sumt sem maður heyrir af atvinnulífi í landinu, og á fréttamyndunum er fátt að sjá nema þurrt gróðursnautt rykið og harðneskjulega karlmenn með misjafnlega gömul skotvopn. Það kemur því óneitanlega svolítið á óvart þegar maður uppgötvar að fyrir ekki svo löngu munaði ekki nema því sem munaði að Afganistan yrði miðdepill í nýju heimsveldi og hefði kannski getað orðið miðpunktur sameiningar milli austurs og vesturs í Asíu. Svo eitthvað hlýtur að vera í þessu landi annað en ryk! Nú verð ég að vísu að taka fram að orðlagið „fyrir ekki svo löngu“ er hér notað með mælikvarða eilífðarinnar í huga. Í rauninni eru 250 ár síðan. En saga Durrani-ríkisins sýnir að Afganistan getur leynt á sér. Nú víkur sögunni sem sé til upphafs 18. aldar. Afganistan hafði þá lengi verið fylgihnöttur öflugra ríkja í Persíu og rétt undir miðja öldina var hálfþrítugur piltur frá Afganistan kominn í hóp helstu lautinanta Persakeisara sem þá hét Nadír Shah og var herforingi mikill. Nadír hafði meðal annars ráðist inn í Indland og haft þaðan mikið herfang og þar á meðal stærsta demant í heimi, Koh-i-noor, sem Nadír kallaði svo: Fjall af birtu! Nú gerðist það árið 1747 að Nadír Shah var myrtur af lífvörðum sínum í borginni Khorasan, hann var orðinn óður af máttsýki og grimmari en boðlegt var. Upplausn varð í ríki hans og ungi lautinantinn frá Afganistan sá sér þann kost vænstan að koma sér heimleiðis og hafði með sér 4.000 úrvalshermenn sem voru af afgönsku bergi brotnir. Síðasta verk hans í Khorasan var að fjarlægja af líki Nadírs demantinn stóra, og þegar heim til Afganistan kom notaði hann dýrð demantsins óspart til að fá ættarhöfðingja í fjalllendinu til að sverja sér hollustueiða. Hann hét Ahmed Khan en lýsti sig nú keisara í fjöllunum og hét eftirleiðis Ahmed Shah. Hann er þó enn kunnari undir nafninu Durrani eða Perlan. Fjallamennirnir í Afganistan höfðu allt frá á dögum Alexanders mikla verið kunnir fyrir harðlyndi og hermennsku. Alexander þurfti að eyða meiri tíma í að brjóta þá undir sig en sigra Persakóng. Nú tókst Durrani að snúa hug hinna afgönsku stríðsmanna frá því að verjast bara í sínum gróðurvana fjöllum, heldur tóku þeir að sækja æ meira niður á slétturnar bæði í vestri og austri. Í vestri náði Durrani stórum svæðum af Persum sem vissu ekki sitt rjúkandi ráð eftir morðið á Nadír Shah, í Mið-Asíu spornaði Afganakeisari gegn áhlaupum frá Kína en mestum sögum fór af herferðum hans suður og austur á bóginn inn á Indlandsskaga – og herferðir hans þangað reynast, þegar að er gáð, eiga sinn þátt í að nú löngu síðar skuli vera litið á Afganistan sem bitbein stórvelda sem aldrei skuli láta í friði, þótt þangað virðist fátt að sækja af auðlindum. Um miðja 18. öld voru liðin rétt rúm 200 ár frá því Mongólar frá Úsbekistan höfðu ansi óvænt brotist yfir afgönsku fjöllin frá Mið-Asíu og náð völdum á Indlandi. Í munni Indverja breyttust Mongólar í Mógúla og á hátindi þeirra stóðu engir Mógúlum á sporði að glæsileik og dýrð. Sá fimmti þeirra var til dæmis sá Shah Jahan sem hóf byggingu grafhýsisins Taj Mahal 1632 og skreytti sig líka mjög með demantinum Koh-i-noor. En þegar komið var fram á 18. öld fór veldi Mógúla ört hnignandi, kóngar í ríkinu Maratha þjörmuðu mjög að þeim og höfðu náð flestum héruðum þeirra á sitt vald, þar á meðal höfuðborginni Delhí. Og þegar Durrani hafði hrist saman og þjálfað nógu öflugan her til að treysta honum gegn Indverjum og kom askvaðandi ofan úr afgönsku fjöllunum með byssur sínar og sverð, þá voru það Maratha-menn sem hann fór að herja á. Nú er frá því að segja, eins og þegar hefur verið gefið í skyn, að fjöllin í Afganistan eru ekki sérlega frjósöm og þar er ekki margt auðlinda. Durrani blés mönnum sínum eldmóði í brjóst með því að höfða til trúarinnar. Hann var múslimi eins og flestallir Afganar og hélt því fram að það væri íslam þóknanlegt að herja á og drepa hindúana sem á Indlandi bjuggu. Hann veifaði meira að segja hinu víðfræga hugtaki „heilögu stríði“ gegn hindúum og dugði vel. En þótt Durrani hefði á merkilega skömmum tíma myndað öflugt ríki þar í fjöllunum og stefndi óhikað til stórveldis, þá var Afganistan einfaldlega ekki nógu ríkt svæði til að standa undir stórveldisdraumum hans. Herferðir Durrani og Afgana til Indlands voru því ekki síst ránsferðir. Hann náði að leggja undir sig það svæði í Indusdal sem nú heitir Pakistan en virðist hafa verið beggja blands um hvort hann langaði virkilega að leggja undir sig allt Indland, eins og hann virtist þó stundum fær um.Í túrban Durrani keisara er demanturinn góði Koh-i-noor sem nú skreytir kórónu Elísabetar Bretadrottningar. Durrani var ekki aðeins herforingi og keisari yfir nýju og vaxandi stórveldi. Hann var líka skáld og mér skilst að hljómur kvæða hans sé góður á frummálinu. Eitt kvæðanna orti hann til heimabyggðar sinnar, Afganistan. Og þar kemur fram ást hans til fjallanna, hvað sem leið gróðurleysi þeirra. Honum finnst hlíðin fögur þótt þar séu engir bleikir akrar:Í blóðinu berum við ást okkar til þín,unga fólkið ræður sér ekki vegna þín.Ég kem til þín og hjarta mitt fær ró.Fjarri þér bítur sorgin sig fasta við hjartað.Ég gleymi krúnunni sjálfri í Delhíþegar ég minnist fjallatindanna í Afganistan.Ef ég verð að velja milli heimsins og þín,hika ég ekki að kjósa mér hrjóstrugar eyðimerkur þínar.En meðan allt lék í lyndi var reyndar ekki útlit fyrir að Durrani Afganakeisari þyrfti að velja milli „heimsins og þín“. Ekki varð betur séð en honum gæti hlotnast hvort tveggja. Í blábyrjun ársins 1761 stefndi nefnilega í það. Þá nálgaðist hann Delhí með gríðarmikinn her Afgana og bandamanna sinn en Maratha-menn tefldu fram hverju mannsbarni sem þeir gátu til varnar. Og við hina fornu borg Panipat, eigi allfjarri Delhí, var blásið til einnar fjölmennustu og blóðugustu orrustu sögunnar – þótt við hér á Vesturlöndum þekkjum lítt eða ekki til hennar. Um þær mundir voru íbúar í breskum nýlendum í Norður-Ameríku að búast til sjálfstæðis og þeir áttu ekki nema áratug síðar eftir að heyja orrustur við Breta sem eru víðfrægar í sögunni, en í svonefndu frelsisstríði Bandaríkjanna áttust ekki við nema örfá þúsund manns í hvert sinn – en við Panibat börðust mörg hundruð þúsund manns. Og úrslit orrustunnar myndu ekki aðeins ráða örlögum Maratha-veldisins eða því hvort hið fátæka Afganistan kæmist til frambúðar í hóp öflugra stórvelda, heldur fylgdust gráðug augu með gangi mála bæði í norðri og suðri. Suður á Indlandi voru Bretar nefnilega að búa sig undir að ganga á lagið ef fótunum yrði kippt undan Maratha-veldinu, en í norðri voru Rússar byrjaðir að velta fyrir sér hvort þröngar slóðir um afganska fjalladali myndu á endanum færa þeim óendanleg auðæfi Indlands. Það valt því mikið á úrslitum einnar orrustu og eftirköstum hennar. Ég segi ykkur frá henni og örlögum Durranis eptir viku. Flækjusaga Mest lesið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Frægir fundu ástina 2024 Lífið Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn Lífið 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp Fleiri fréttir Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Frægir fjölguðu sér árið 2024 Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni „Það besta, versta og skrýtnasta á árinu“ Eitt fallegasta hús landsins sem Duna Laxness ólst upp í Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Barst með snjóflóði út í sjó og fékk hjartaáfall á tíu metra dýpi Hefðum við átt að sjá framboð Höllu Hrundar fyrir strax í febrúar? Ringo tróð upp á tónleikum Paul McCartney Safnaði fyrir björgunarsveitinni sem kom ömmu úr snjóflóði Fjölgar listaverkum eftir konur á Bessastöðum Helgi og Rakel með listgallerí í miðri íbúð þeirra Sonur Gunnhildar og Erin kominn með nafn Prinsinn kom á undan Kónginum Tilkynningin sem kom af stað óvæntri atburðarás Kári og Eva eru hjón Hafdís ætlar ekki að svara spurningaflóðinu Einfaldar leiðir fyrir andlega vellíðan um hátíðirnar „Þetta byrjaði allt þegar ég var á lausu“ Orði gagnrýni eins og þeir vilji að makinn orði hana Sjá meira
Í meira en þrjátíu og fimm ár hef ég horft á fréttamyndir frá Afganistan og aldrei hef ég séð á þeim svo mikið sem stingandi strá. Grá fjöll grjóthrúgur, í hæsta lagi leirlitur sums staðar á söndunum, skraufþurr óhroðinn blæs út úr þessum myndum í augu okkar, hvergi er neitt grænt, ekki einu sinni gulnað strá. Og fólkið alltaf klætt í hólkvíð föt til að standa af sér gróðurvana vindinn. Þannig eru allar fréttamyndir frá Afganistan sem ég man eftir þessa áratugi. Og maður hugsar með sér, um hvað er eiginlega verið að berjast, eftir hverju er að sækjast í þessari hrjóstrugu eyðimörk? Nú skilst mér að vísu að einhvers staðar sé gróður í Afganistan, stundum berast fréttir af því hvernig valmúinn hafi sprottið í ár og hverju megi þá búast við á eiturlyfjamörkuðum heimsins næstu misserin – en það er líka eiginlega allt og sumt sem maður heyrir af atvinnulífi í landinu, og á fréttamyndunum er fátt að sjá nema þurrt gróðursnautt rykið og harðneskjulega karlmenn með misjafnlega gömul skotvopn. Það kemur því óneitanlega svolítið á óvart þegar maður uppgötvar að fyrir ekki svo löngu munaði ekki nema því sem munaði að Afganistan yrði miðdepill í nýju heimsveldi og hefði kannski getað orðið miðpunktur sameiningar milli austurs og vesturs í Asíu. Svo eitthvað hlýtur að vera í þessu landi annað en ryk! Nú verð ég að vísu að taka fram að orðlagið „fyrir ekki svo löngu“ er hér notað með mælikvarða eilífðarinnar í huga. Í rauninni eru 250 ár síðan. En saga Durrani-ríkisins sýnir að Afganistan getur leynt á sér. Nú víkur sögunni sem sé til upphafs 18. aldar. Afganistan hafði þá lengi verið fylgihnöttur öflugra ríkja í Persíu og rétt undir miðja öldina var hálfþrítugur piltur frá Afganistan kominn í hóp helstu lautinanta Persakeisara sem þá hét Nadír Shah og var herforingi mikill. Nadír hafði meðal annars ráðist inn í Indland og haft þaðan mikið herfang og þar á meðal stærsta demant í heimi, Koh-i-noor, sem Nadír kallaði svo: Fjall af birtu! Nú gerðist það árið 1747 að Nadír Shah var myrtur af lífvörðum sínum í borginni Khorasan, hann var orðinn óður af máttsýki og grimmari en boðlegt var. Upplausn varð í ríki hans og ungi lautinantinn frá Afganistan sá sér þann kost vænstan að koma sér heimleiðis og hafði með sér 4.000 úrvalshermenn sem voru af afgönsku bergi brotnir. Síðasta verk hans í Khorasan var að fjarlægja af líki Nadírs demantinn stóra, og þegar heim til Afganistan kom notaði hann dýrð demantsins óspart til að fá ættarhöfðingja í fjalllendinu til að sverja sér hollustueiða. Hann hét Ahmed Khan en lýsti sig nú keisara í fjöllunum og hét eftirleiðis Ahmed Shah. Hann er þó enn kunnari undir nafninu Durrani eða Perlan. Fjallamennirnir í Afganistan höfðu allt frá á dögum Alexanders mikla verið kunnir fyrir harðlyndi og hermennsku. Alexander þurfti að eyða meiri tíma í að brjóta þá undir sig en sigra Persakóng. Nú tókst Durrani að snúa hug hinna afgönsku stríðsmanna frá því að verjast bara í sínum gróðurvana fjöllum, heldur tóku þeir að sækja æ meira niður á slétturnar bæði í vestri og austri. Í vestri náði Durrani stórum svæðum af Persum sem vissu ekki sitt rjúkandi ráð eftir morðið á Nadír Shah, í Mið-Asíu spornaði Afganakeisari gegn áhlaupum frá Kína en mestum sögum fór af herferðum hans suður og austur á bóginn inn á Indlandsskaga – og herferðir hans þangað reynast, þegar að er gáð, eiga sinn þátt í að nú löngu síðar skuli vera litið á Afganistan sem bitbein stórvelda sem aldrei skuli láta í friði, þótt þangað virðist fátt að sækja af auðlindum. Um miðja 18. öld voru liðin rétt rúm 200 ár frá því Mongólar frá Úsbekistan höfðu ansi óvænt brotist yfir afgönsku fjöllin frá Mið-Asíu og náð völdum á Indlandi. Í munni Indverja breyttust Mongólar í Mógúla og á hátindi þeirra stóðu engir Mógúlum á sporði að glæsileik og dýrð. Sá fimmti þeirra var til dæmis sá Shah Jahan sem hóf byggingu grafhýsisins Taj Mahal 1632 og skreytti sig líka mjög með demantinum Koh-i-noor. En þegar komið var fram á 18. öld fór veldi Mógúla ört hnignandi, kóngar í ríkinu Maratha þjörmuðu mjög að þeim og höfðu náð flestum héruðum þeirra á sitt vald, þar á meðal höfuðborginni Delhí. Og þegar Durrani hafði hrist saman og þjálfað nógu öflugan her til að treysta honum gegn Indverjum og kom askvaðandi ofan úr afgönsku fjöllunum með byssur sínar og sverð, þá voru það Maratha-menn sem hann fór að herja á. Nú er frá því að segja, eins og þegar hefur verið gefið í skyn, að fjöllin í Afganistan eru ekki sérlega frjósöm og þar er ekki margt auðlinda. Durrani blés mönnum sínum eldmóði í brjóst með því að höfða til trúarinnar. Hann var múslimi eins og flestallir Afganar og hélt því fram að það væri íslam þóknanlegt að herja á og drepa hindúana sem á Indlandi bjuggu. Hann veifaði meira að segja hinu víðfræga hugtaki „heilögu stríði“ gegn hindúum og dugði vel. En þótt Durrani hefði á merkilega skömmum tíma myndað öflugt ríki þar í fjöllunum og stefndi óhikað til stórveldis, þá var Afganistan einfaldlega ekki nógu ríkt svæði til að standa undir stórveldisdraumum hans. Herferðir Durrani og Afgana til Indlands voru því ekki síst ránsferðir. Hann náði að leggja undir sig það svæði í Indusdal sem nú heitir Pakistan en virðist hafa verið beggja blands um hvort hann langaði virkilega að leggja undir sig allt Indland, eins og hann virtist þó stundum fær um.Í túrban Durrani keisara er demanturinn góði Koh-i-noor sem nú skreytir kórónu Elísabetar Bretadrottningar. Durrani var ekki aðeins herforingi og keisari yfir nýju og vaxandi stórveldi. Hann var líka skáld og mér skilst að hljómur kvæða hans sé góður á frummálinu. Eitt kvæðanna orti hann til heimabyggðar sinnar, Afganistan. Og þar kemur fram ást hans til fjallanna, hvað sem leið gróðurleysi þeirra. Honum finnst hlíðin fögur þótt þar séu engir bleikir akrar:Í blóðinu berum við ást okkar til þín,unga fólkið ræður sér ekki vegna þín.Ég kem til þín og hjarta mitt fær ró.Fjarri þér bítur sorgin sig fasta við hjartað.Ég gleymi krúnunni sjálfri í Delhíþegar ég minnist fjallatindanna í Afganistan.Ef ég verð að velja milli heimsins og þín,hika ég ekki að kjósa mér hrjóstrugar eyðimerkur þínar.En meðan allt lék í lyndi var reyndar ekki útlit fyrir að Durrani Afganakeisari þyrfti að velja milli „heimsins og þín“. Ekki varð betur séð en honum gæti hlotnast hvort tveggja. Í blábyrjun ársins 1761 stefndi nefnilega í það. Þá nálgaðist hann Delhí með gríðarmikinn her Afgana og bandamanna sinn en Maratha-menn tefldu fram hverju mannsbarni sem þeir gátu til varnar. Og við hina fornu borg Panipat, eigi allfjarri Delhí, var blásið til einnar fjölmennustu og blóðugustu orrustu sögunnar – þótt við hér á Vesturlöndum þekkjum lítt eða ekki til hennar. Um þær mundir voru íbúar í breskum nýlendum í Norður-Ameríku að búast til sjálfstæðis og þeir áttu ekki nema áratug síðar eftir að heyja orrustur við Breta sem eru víðfrægar í sögunni, en í svonefndu frelsisstríði Bandaríkjanna áttust ekki við nema örfá þúsund manns í hvert sinn – en við Panibat börðust mörg hundruð þúsund manns. Og úrslit orrustunnar myndu ekki aðeins ráða örlögum Maratha-veldisins eða því hvort hið fátæka Afganistan kæmist til frambúðar í hóp öflugra stórvelda, heldur fylgdust gráðug augu með gangi mála bæði í norðri og suðri. Suður á Indlandi voru Bretar nefnilega að búa sig undir að ganga á lagið ef fótunum yrði kippt undan Maratha-veldinu, en í norðri voru Rússar byrjaðir að velta fyrir sér hvort þröngar slóðir um afganska fjalladali myndu á endanum færa þeim óendanleg auðæfi Indlands. Það valt því mikið á úrslitum einnar orrustu og eftirköstum hennar. Ég segi ykkur frá henni og örlögum Durranis eptir viku.
Flækjusaga Mest lesið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Frægir fundu ástina 2024 Lífið Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn Lífið 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp Fleiri fréttir Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Frægir fjölguðu sér árið 2024 Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni „Það besta, versta og skrýtnasta á árinu“ Eitt fallegasta hús landsins sem Duna Laxness ólst upp í Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Barst með snjóflóði út í sjó og fékk hjartaáfall á tíu metra dýpi Hefðum við átt að sjá framboð Höllu Hrundar fyrir strax í febrúar? Ringo tróð upp á tónleikum Paul McCartney Safnaði fyrir björgunarsveitinni sem kom ömmu úr snjóflóði Fjölgar listaverkum eftir konur á Bessastöðum Helgi og Rakel með listgallerí í miðri íbúð þeirra Sonur Gunnhildar og Erin kominn með nafn Prinsinn kom á undan Kónginum Tilkynningin sem kom af stað óvæntri atburðarás Kári og Eva eru hjón Hafdís ætlar ekki að svara spurningaflóðinu Einfaldar leiðir fyrir andlega vellíðan um hátíðirnar „Þetta byrjaði allt þegar ég var á lausu“ Orði gagnrýni eins og þeir vilji að makinn orði hana Sjá meira