Lífið

Í hlutverki yfirstéttarskrímslis

sigga dögg skrifar
Vísir/Saga Sig
Svandís Dóra Einarsdóttir leikkona hefur afrekað margt á stuttum ferli og státar af því að hafa leikið í fjölmörgum sjónvarpsþáttum og kvikmyndunum; Hross í oss, Borgríki, Kurteist fólk, Hraunið og Harrý og Heimir, og nú síðast Fyrir framan annað fólk, sem verður frumsýnd í febrúar á næsta ári. Eins og svo margir leikarar þá er Svandís ekki við eina fjölina felld heldur hefur hún einnig leikið í fjölda verka á sviðum leikhúsanna, til dæmis Heimsljósi og Karítas.

Svandís stendur í ströngu um þessar mundir við sýningar á nýju íslensku verki, „(90)210 Garðabær“ sem er sýnt í Þjóðleikhúsinu. „Þetta er mjög svört kómedía sem fjallar ekki endilega um Garðbæinga þó að sögusviðið sé þar. Þarna fáum við að fylgjast með fólki eða ef má segja „yfirstéttarskrímslum“ sem svífast einskis til að vernda afkvæmi sín og sitt fólk. Hvernig einelti getur fylgt okkur fram á fullorðinsaldur og hversu mikið við í raun fullorðnumst. Þetta er líka smá ádeila á hvort 2007 sé komið aftur, sorglegt en satt.“

Vísir/Einkasafn
Svandís útskrifaðist úr Listaháskólanum árið 2010 og við tók ár af „ströggli“ eins og hún orðar það sjálf. „Eftir útskrift vann ég með sjálfstæðum leikhópum, ég fór ekki beint á samning, og það var í raun það besta sem gat komið fyrir mig því þá var ég í harkinu í tæpt ár, þangað til ég komst inn í Þjóðleikhúsið og sá tími gaf mér tækifæri til að sjá hvort þetta væri eitthvað sem ég virkilega vildi gera. Það var auðvitað smá höfnun að fá ekki strax eitthvað að gera en þá fattaði ég að þetta er ákveðin köllun,“ segir Svandís af eldmóð.

„Þegar ég var í skólanum þá fékk ég reyndar hlutverk í Kurteist fólk og svo Borgríki og eru það fyrstu kvikmyndirnar sem ég leik í en ég er alltaf með annan fótinn í Þjóðleikhúsinu.“ 

Svandís segir kvikmyndir reyna öðruvísi á leikara heldur en leikhúsið. „Þetta er í raun svipuð vinna karakterlega séð en um leið ólíkt hvernig hún reynir á leikarann, á sviði ertu alltaf að endurskapa ákveðið móment og alltaf að gera það eins og þú sért að gera það í fyrsta sinn, en í tökum þá nærðu kannski ákveðnu mómenti einu sinni og þá er það komið og þú gerir þetta aldrei aftur; ég myndi ekki vilja þurfa að velja annað hvort“, segir Svandís.

„Ég hef bæði verið heppin hvað varðar hlutverk og verið dugleg að sækjast eftir þeim, ég læt vita af mér og hef samband við þá leikstjóra sem mig langar til að vinna með en auðvitað hef ég hafnað handritum líka, það hefur reyndar gerst örsjaldan en það hefur komið fyrir, þá aðallega vegna þess að ég tengdi ekki við karakterinn eða fannst sagan ekki eiga við mig,“ segir Svandís og bætir við kímin að í draumaheimi þá væri hún með umboðsmann sem myndi sjá um þessi mál fyrir hana.

Á hestbaki.Vísir/Einkasafn
Uppeldið var ævintýri

Svandís er dóttir Einars Bollasonar, körfuboltaþjálfara og íþróttafréttamanns, og Sigrúnar Ingólfsdóttur, kennara og handboltakempu. Svandís segist hafa brennandi áhuga á ferðalögum og byrjaði sá áhugi snemma.

„Pabbi ferðast út um allt vegna vinnunnar og þar sem ég var litla örverpið þá fékk ég að fljóta með í ferðatöskunni og því lá leið okkar oft til Bandaríkjanna og við héldum jól í Flórída annað hvert ár en sumrunum eyddum við í sveitinni á hestbaki,“ segir Svandís dreymin og kát er hún rifjar upp æskuna.

„Mamma er algjör bóhem og mjög mikið í andlegum málefnum og lagði mikla áherslu á að rækta sjálfið og við töluðum mikið um það og ég finn mikið fyrir því í dag; eftir því sem ég eldist því meira pæli ég í trú og verð í raun trúaðri,“ segir Svandís en áréttar að trú og trúar­brögð þurfi ekki að vera það sama.

„Ég tók trúarbragðafræði í menntaskólanum og þar áttaði ég mig á því að þetta er í raun allt það sama en heitir mismunandi nöfnum. Ég trúi á hið góða, að það sé eitthvað gott í kringum okkur og það megi ná sér í orku úr náttúrunni,“ segir Svandís sem einnig er mjög næm á umhverfi sitt og fólk. „Ég er yfirleitt mjög góð í að lesa fólk og tel mig góðan mannþekkjara en það hefur aukist í seinni tíð með auknu sjálfstrausti og því að þora að standa með sjálfri mér“, segir Svandís þakklát fyrir árafjöldann sem færir visku og yfirvegun. „Ég passa einnig að stunda jóga og hreyfa mig og þannig finn ég að ég næ að halda mér í sem bestu jafnvægi,“ segir Svandís.

Foreldrar Svandísar voru tvístígandi þegar kom að námsvali hennar. „Þau lögðu alltaf ríka áherslu á að maður ætti að standa sig í skólanum og ég passaði það alltaf en svo þegar ég fann að leiklist var það sem ég vildi þá runnu á þau tvær grímur en það hefur örugglega verið af því þau vildu bara öruggan starfsframa fyrir mig en ekki eitthvert hark,“ segir Svandís á skilningsríkan og yfirvegaðan hátt.

„Ég hafði leikið í alls kyns verkum þegar ég var í Verzló en það var ekki fyrr en ég tók að mér frekar dramatísk verk með Stúdentaleikhúsinu sem mamma og pabbi sáu alvöruna í leiklistinni hjá mér og eftir það þá voru þau mjög jákvæð og sýndu mér mikinn stuðning,“ segir Svandís.

Svandís og eiginmaðurinn Sigtryggur Magnason.Vísir/Saga Sig
Ástinni forgangsraðað

Eiginmaður Svandísar er Sigtryggur Magnason, leikskáld og sköpunarstjóri Íslensku auglýsingastofunnar, en þau hjón hafa verið saman í bráðum sex ár og gengu í hjónaband í sumar.

„Við kynntumst í Nemendaleikhúsinu og byrjuðum saman rétt fyrir útskrift hjá mér úr Listaháskólanum og þar með var það bara svoleiðis, við bara féllum kylliflöt hvort fyrir öðru. Hann er eldri en ég svo ég þurfti að spýta í lófana og fullorðnast frekar hratt,“ segir Svandís sem fékk þrjú yndis­leg stjúpbörn í kaupbæti.

„Ég hef staðið sjálfa mig að því að breytast stundum í foreldra mína þegar ég tala við krakkana og þá bregður manni ögn, sérstaklega ef maður er að röfla yfir fjölda skópara í forstofunni og fattar allt í einu að maður hefur breyst í pabba sinn,“ segir Svandís og skellir upp úr.

Vísir/Saga Sig
Ástin blómstrar hjá parinu. Þau starfa bæði í sama geira og njóta þau því töluverðs stuðnings hvort frá öðru. Þau búa saman í miðbænum en leggja brátt land undir fót og munu eyða áramótum og fyrstu vikum nýs árs á Indlandi.

„Við vorum alltaf á leið í „honeymoon“ en svo tók ég að mér ný verkefni og seinkaði alltaf ferðalaginu okkar en núna erum við loks á leiðinni til Indlands,“ segir Svandís spennt. „Ég get ekki beðið eftir að kynnast nýrri menningu og fara í eitthvað allt annað, ég held það sé svo nauðsynlegt að breyta reglulega um umhverfi því annars finn ég að ég verð eirðarlaus og veit ekki hvað ég á að gera af mér og því er gott að fara í svona ferð og endurnæra sig alveg,“ segir þessi orkumikla leikkona sem vissulega á spennandi framtíð fyrir sér.


Tengdar fréttir

„Ég hræðist ekki eigin nekt á hvíta tjaldinu“

Það er erfitt að hrífast ekki af orkunni og fjörinu sem fylgir Rakel Björk Björnsdóttur leikkonu. Það er ekki nóg með að af henni drjúpi fegurð og glaðværð heldur er hún einnig með smitandi bros og eftir örfá andartök er líkt og blaðamaður hafi drukkið úr æskubrunninum og fundið fyrri ljóma.

Láta drauminn rætast í Frakklandi

Gísli Egill Hrafnsson og Inga Elsa Bergþórsdóttir, höfundar fjölmargra matreiðslubóka og matgæðingar miklir fjalla hér um nýútkomna bók þeirra sem hefur ratað víða um heim og ástríðuna fyrir matarmenningu og matvælum.

Upplifanir sitja eftir, ekki veraldlegir munir

Þegar skyggnst er á bak við tjöldin vakna spurningar um hver Eygló sé í raun og veru, hvað hefur mótað hana og hennar sýn í stjórnmálum og hvernig hún aðskilur þingheim frá heimilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×