Erlent

Segir flugritann leiða sannleikann í ljós

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Pútín, Shoigu og flugritinn.
Pútín, Shoigu og flugritinn. vísir/afp
„Svarti kassi“ rússnesku herþotunnar sem skotin var niður yfir Sýrlandi þann 24. nóvember síðastliðinn mun staðfesta að hún hafi ekki rofið tyrkneska lofthelgi þegar Tyrkir grönduðu henni.

Þetta eru skilaboðin sem Vladimir Pútín sendi blaðamönnum þegar hann veitti flugrita SU-24 orrustuþotunnar viðtöku ásamt varnarmálaráðherra landsins, Sergei Shoigu, í Moskvu í dag.

„Eins og ég skil það mun flugritinn gefa okkur færi á að skoða ferð vélarinnar frá því að hún hóf sig til flugs þangað til að hún hrapaði til jarðar. Það þýðir að við munum sjá hvar vélin var þegar hún var skotin hin og hvenær hið svikula skot tyrkneska flughersins hæfði þotuna,“ sagði Pútín.

Pútín hefur áður lýst því yfir að svarti kassinn verði þó einungis opnaður af erlendum, óháðum sérfræðingum. Rússlandsforseti nýtti tækifæri í dag til að þakka öllum þeim sem komu að aðgerðunum í kjölfar grands rússnesku orrustuþotunnar yfir Sýrlandi fyrir hálfum mánuði.

Tyrknesk stjórnvöld hafa haldið því statt og stöðugt fram að vélin hafi flogið inn í lofthelgi landsins þegar flugherinn ákvað að granda henni. Þessu hafa ráðamenn í Moskvu vísað á bug og segja vélina hafa verið yfir Sýrlandi þegar hún var skotin niður. Allar götur síðan hefur köldu blásið á milli ríkjanna.

Eftirfarandi myndband birti Russia Today af fundi þeirra Pútíns og Shoigu í dag.


Tengdar fréttir

Rússar birta meintar sannanir

Birta gervihnattamyndir og drónamyndbönd sem eiga að sanna að Tyrkir kaupi olíu af Íslamska ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×