Lífið

Bókin talar beint inn í okkar tíma

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Þjóðleikhúsið ætlar að setja Gott fólk í sýningu á næsta leikári.
Þjóðleikhúsið ætlar að setja Gott fólk í sýningu á næsta leikári.
Þjóðleikhúsið hefur tryggt sér réttinn á bókinni Gott fólk eftir Val Grettisson. Bókin kom út í sumar og hefur fengið lof gagnrýnenda og jafnt sem lesenda.

Hún fjallar í stuttu máli um menningarblaðamanninn Sölva sem fær bréf í ábyrgðapósti, í votta viðurvist. Bréfið er frá fyrrum kærustu hans og í því spyr hún hann hvort hann gangist við því að hafa beitt hana ofbeldi í sambandi þeirra. Hann getur einungis svarað „já“ eða „nei“. Sölvi viðurkennir að hann hafi verið ruddalegur við fyrrum kærustu sína og merkið því við „já“.

Sú ákvörðun hrindir af stað atburðarás sem hvorugt þeirra sá fyrir, líf þeirra gjörbreytist. Þegar upp er staðið veit hann sjálfur ekki hvað er satt og hvað er logið í því sem sagt er um samband þeirra, hver beitti hvern ofbeldi og missir í raun sjónar á skilgreiningu hugtaksins.

Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri segir söguna tala beint inn í þá umræðu sem nú sé í gangi í þjóðfélaginu. Hann segir það vera eindreginn ásetning hans fólks að verkið fari í sýningu á næsta leikári.

Í skýjunum

Sjálfur segist höfundur bókarinnar, Valur Grettisson, vera í skýjunum.

„Ég er bara virkilega ánægður. Bókin er einhvernveginn orðin sjálfstætt fyrirbæri og farin að eignast sitt eigið líf. Mér finnst þetta auðvitað heiður; að einhver trúi á söguna og að hægt sé að gera góða leikgerð úr henni. Að mínu mati er Þjóleikhúsið líka toppurinn í leikhúsi á Ísland og mér finnst það djörf pæling að setja verkið upp þar.“

Valur mun sjálfur taka þátt í ferlinu, hann mun skrifa leikgerðina ásamt Símoni Birgissyni dramatúrg.

„Mér þykir vænt um að fá að fylgja þessu eftir og vera með í þessu ferli. Ég held að þetta verðu ögrandi, hættulegt og skemmtilegt verkefni,“ bætir hann við.

Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri.Vísir/Ernir
Fólk hækkar róminn

Ari Matthíasson er ákaflega hrifinn af bókinni og finnt hún eiga vel við umræðuna sem er í gangi í þjóðfélaginu um þessar mundir.

„Hún tekur á kynbundnu ofbeldi og mismunandi skilgreiningu á því, hvað fer á milli tveggja einstaklinga. Hún getur fjallað um leyfi okkur til að endurskilgreina atburði fortíðarinnar sem gefa þeim nýtt vægi og nýja stöðu. Sagan hreyfir við lesandanum, því hún sýnir hversu erfið þessi mál geta verið, hvernig þau geta neytt fólk til að taka afstöðu í máli sem það hefur takmarkaðar upplýsingar um.“

Ari segir að þegar bókin hafi verið rædd á fundum hafi hann fundið hvernig allir hækkuðu róminn aðeins.

„Þetta er eldfimt efni, þessi saga. Og maður fann hvernig fundirnir fóru stundum út í hamagang því þetta skiptir fólk miklu máli. Það er áhugavert að skoða þessi mál og velta, til dæmis fyrir sér hver hlutur fjölmiðla og samfélagsmiðla sé.“

Ari bætir því að honum þyki mikilvægt að kona leikstýri sýningunni. „Fyrsta sem ég hugsaði þegar las bókina var að kona þyrfti að setja þetta upp. Það er karl sem skrifar og hún er sögð frá sjónarhorni karls. Ég hef mikinn áhuga á þessari sögu og varð strax viss um að þetta gæti orðið að góðu leikverki.“

Gott fólk eftir Val Grettisson.
Gott fólk fékk fjórar stjórnur frá gagnrýnanda Fréttablaðsins. Um hana segir meðal annars:

Spurningarnar sem Valur veltir upp í þessari fyrstu skáldsögu sinni eru knýjandi og undarlegt hve lítið hefur farið fyrir þessari bók í umræðunni.

Vísunin í þekkt mál af sama toga sem komst í hámæli fyrir nokkrum árum veldur kannski því að fólk veigrar sér við að ræða þetta, en þótt líkindin séu augljós er hér vissulega um skáldsögu að ræða.


Góða skáldsögu meira að segja; vel skrifaða með skýrri persónusköpun, þaulhugsaðri atburðarás og sterkum spurningum um það hver staðan sé á samskiptum kynjanna í samtímanum.

Frasinn um að skila skömminni þangað sem hún á heima er undirliggjandi í málflutningi konunnar en um leið horfir hún og stuðningsmenn hennar framhjá þeirri staðreynd að á meðan á ástarsambandinu stóð bar hún aldrei fram ásakanir um ofbeldi og tók þátt í leiknum. Ber hún þá enga ábyrgð á samskiptamunstrinu? Er það á ábyrgð karlmannsins að passa að ekki sé gengið yfir ákveðin mörk í ástarsambandi? Hvert er í raun ábyrgðarferlið?







Fleiri fréttir

Sjá meira


×