Jón Þór Ingimundarson, einn eigenda Laxa sem liggur bundinn í höfninni, situr inni í bíl ásamt sameigendum sínum að bátnum og reiknar að standa vaktina fram á nótt. Hann segir alls ekki rétt sem fram hafi komið að eigendur smábátanna hafi ekki sinnt þeim.
„Það er bara rugl,“ segir Jón Þór sem mætti niður á höfn í dag til að búa um bátinn. Þá hafði hann sömuleiðis samband við Faxaflóahafnir sem sögðu ekki þörf á að færa bátana.
„Okkar bátur er í góðu lagi. Við gengum vel frá honum í dag.“
Einn bátur við það að sökkva
Slökkviliðs- og björgunarsveitarmenn hafa verið við bryggjuna en lítið getað gert vegna þess hve hvasst er. Þó hefur þeim tekist að fest bátinn Storm sem losnaði fyrr í kvöld. Jón Bjarnason, eigandi Storms, hafði eðlilega áhyggjur af því í samtali við RÚV í kvöld að bátur hans myndi sökkva en nú virðast aðstæður aðeins hafa skánað hvað varðar hans bát.
Jón Þór segir hins vegar margt benda til þess að annar smábátur sé við það að sökkva. Annar endi hans virðist vera að fara niður og er Jón Þór hræddur um að gat hafi komið á hann.
Þeir félagarnir ætla að vera á vettvangi þangað til lægir.
Að neðan má sjá myndband frá óveðrinu í höfninni fyrr í kvöld.