Neðri deild þýska þingsins samþykkti fyrr í kvöld að senda hermenn og hergögn til þess að berjast við ISIS í Sýrlandi og Írak.
445 þingmenn voru samþykkir og 146 þingmenn voru á móti en þýski herinn mun ekki koma með beinum hætti að loftárásum.
Herinn mun senda herskip til stuðnings Charles de Gaulle, flugmóðurskipi Frakka, en þaðan gera Frakkar megnið af sínum loftárásum á bækistöðvar ISIS. Talið er að um 1.200 hermenn muni fylgja herþotunum og skipunum.
Einnig munu Þjóðverjar senda áfyllingarflugvélar og eftirlitsflugvélar til stuðnings loftárása Frakka, Breta, Bandaríkjanna og annarra ríkja sem hert hafa loftaráris til muna á ISIS vegna hryðjuverkaárásana í París.
Tyrkir hafa einnig sent herlið inn í Írak til þess að þjálfa íraska hermenn með það að markmiði að ná aftur Mosul, einni stærstu borgar Írak sem féll í hendur ISIS á síðasta ári.
