Sport

Eygló aftur á verðlaunapall á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir í lauginni.
Eygló Ósk Gústafsdóttir í lauginni. Vísir/Anton
Eygló Ósk Gústafsdóttir vann aftur bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug sem nú stendur yfir í Netanya í Ísrael, nú í 200 m baksundi.

Eygló synti á 2:03,53 mínútum sem er bæting á Íslandsmeti hennar sem hún setti í undanrásunum í morgun. Hún vann einnig bronsverðlaun í 100 m baksundi í gær en 200 m baksund er hennar sterkasta grein.

Sjá einnig: Eygló flaug inn í úrslit með þriðja besta tímann

Katinka Hosszu frá Ungverjalandi vann gull, rétt eins og í gær, með miklum yfirburðum. Hún kom í mark á nýju mótsmeti, 1:59,84 mínútum en sjálf á hún heimsmetið í greininni, 1:59,23. Átján ára rússnesk stúlka, Daria Ustinova, vann silfur á 2:01,57 mínútum.

Hosszu hafði drjúga forystu strax frá upphafi en rétt eins og í gær fór Eygló sér hægt í upphafi. Hún var í fimmta sæti eftir 150 metra en tryggði sér bronsið með stórglæsilegum lokaspretti.

Niðurstaðan er glæsileg fyrir Eygló Ósk sem varð í gær fyrsta ófatlaða íslenska sundkonan sem kemst á verðlaunapall á stórmóti.

Sjá einnig: Ég barðist við tárin á pallinum



Þess má geta að Norðurlandametið í greininni er 2:03,26 mínútur og er það því enn í eigu Michelle Coleman frá Svíþjóð. Eygló á Norðurlandametið í 200 m baksundi í 50 m laug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×