Erlent

5000 flóttamenn fastir við landamæri Grikklands

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hluti flóttamanna er argur sökum forgangsröðunnar makedónskra stjórnvalda.
Hluti flóttamanna er argur sökum forgangsröðunnar makedónskra stjórnvalda. VÍSIR/AFP
Grikkir hafa óskað eftir aðstoð Evrópusambandsins við landamæravörslu í skugga þúsunda flóttamanna sem eru strandaglópar á landamærum Grikklands og Makedóníu.

Makedónar hafa einungis hleypt Sýrlendingum, Írökum og Afgönum sem eru að flýja átök inn í landið sem vakið hefur mikla reiði meðal annarra hópa flóttamanna.

Lögreglan beitti táragasi á flóttamennina í dag er hún reyndi að ryðja vegartálma sem þeir höfðu komið fyrir við landamærin.  Þá lést ungur marakóskur flóttamaður eftir raflost í átökum lögreglunnar og flóttamanna nærri Idomeni. Maðurinn hafði klifrað ofan á þak farþegalestar sem flutti flóttamenn og snert háspennuvír að sögn þarlendra lögreglumanna.

Talið er að um 5000 flóttamenn séu nú strandaglópar við landamærin, þar af eru 43 fullar rútur af Sýrlendingum, Írökum og Afgönum sem komu að landamærunum síðastliðna nótt.

Innanríkisráðherrar Evrópusambandsins munu funda á föstudag til að ræða getu Grikklands til að ráða við straum flóttamannanna í gegnum landið á leið sinn til norðurhluta álfunnar.

Talið var að á fundinum yrði einnig rætt um að gera tveggja ára hlé á Schengen-samstarfinu, ekki síst vegna þess að flóttamannastraumurinn hafi opinberað „alvarlega annmarka“ á grísku landamærunum sem ógni svæðinu öllu.

Þessu mótmælti aðstoðarmaður Ólafar Nordal í kvöld og sagði að ekkert slíkt væri á efniskránni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×