Bíó og sjónvarp

Tarantino: „Disney er að reyna að eyðileggja fyrir mér“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Quentin Tarantino er allt annað en sáttur.
Quentin Tarantino er allt annað en sáttur. vísir/getty
Quentin Tarantino er allt annað en sáttur með Disney. Nýjasta mynd hans, The Hateful Eight, verður frumsýnd á nýársdag en til stendur að hafa sérstakar forsýningar, svokallaðar „Roadshow“ sýningar, í örfáum, útvöldum kvikmyndahúsum en nú hefur Disney komið í veg fyrir að myndin verði forsýnd í „heimakvikmyndahúsi“ Tarantino.

Forsýningarnar áttu að vera í 70 mm útgáfu og var áætlað að eitt kvikmyndahúsanna yrði Cinerama Dome í Los Angeles en húsið er sérstaklega smíðað fyrir 70 mm breiðtjaldssýningar. Nýjasta myndin í Star Wars myndaseríunni, The Force Awakens, átti að vera til sýningar í húsinu vikurnar tvær á undan mynd Tarantino en forráðamenn Disney hafa nú ákveðið að sýna myndina þar einnig yfir jólahátíðina. Það þýðir að The Hateful Eight var bolað í burtu.

„Ég bjó The Hateful Eight til fyrir Dome-kvikmyndahúsið,“ sagði Tarantino í viðtali við Deadline fyrr í þessum mánuði þegar þeir sem komu að myndinni fengu að sjá hana í kvikmyndahúsinu. Hann mætti síðan í útvarpsþátt Howard Stern fyrir skemmstu þar sem hann úthúðaði Disney.

„Þeir sögðu við forráðamenn Dome að þeir vildu fá að sýna þar í fleiri vikur og svarið var að þeir myndu standa við samning sinn við mig. Örfáum dögum síðar hringja þeir aftur og tjá kvikmyndahúsinu að ef myndin mín verður sýnd um jólin þá muni þeir draga Star Wars úr sýningu í öðrum húsum fyrirtækisins,“ sagði Tarantino hjá Stern.

Tarantino tók það sérstaklega fram að hann ætti ekkert sökótt við J.J. Abrams eða þá sem komu að gerð myndarinnar heldur væru það yfirmenn hjá Disney sem væru að reyna að skemma fyrir honum. Hann minnti einnig á að Miramax, fyrirtækið sem m.a. framleiddi Pulp Fiction og Kill Bill, hefði eitt sinn verið í eigu Disney.

„Myndir mínar hafa skapað Disney miklar tekjur og ég skil hreinlega ekki þessa hefnigirni af þeirra hálfu.“

Upptöku af viðtali Stern við Tarantino má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.