Skoðun

Gerum betur í samgöngumálum

Helgi Kjartansson skrifar
Mannanna verk standa ekki öll um aldur og ævi. Sum endast vel og lengi og skila hlutverki sínu eins og til var ætlast en önnur þarfnast viðhalds og lagfæringar fljótlega eftir að þau eru tekin í gagnið. Allt fer það eftir því hvernig staðið var að framkvæmdum í upphafi og hvaða hlutverki verkið átti að þjóna þegar það var undirbúið. Margt getur breyst á stuttum tíma sem getur haft áhrif á endingu.

Á sínum tíma var vegakerfið í Uppsveitum Árnessýslu hannað og byggt upp til að þjóna íbúum, frístundabyggðinni og þeim ferðamönnum sem þá lögðu leið sína um sveitirnar. En á síðustu árum hefur álag á kerfið margfaldast vegna aukins fjölda ferðamanna um svæðið. Það gefur augaleið að eitthvað gefur þá eftir. Vegakerfið á þessu svæði þarf að bera um 80-90% af umferð þeirra erlendu ferðamanna sem leggja leið sína til landsins. Á þessu ári má því gera ráð fyrir að a.m.k. 800.000-900.000 erlendir ferðamenn fari um þessa vegi til viðbótar við íbúa og innlendu ferðamennina sem gætu verið um 200.000. Þegar fjöldi erlendra ferðamanna verður komin upp í 2 milljónir eftir nokkur ár, eins og spár gera ráð fyrir, og sama hlutfall leggur leið sína í Uppsveitirnar, má gera ráð fyrir að 1,6-1,8 milljónir erlendra ferðamanna fari um vegina það árið.

Helstu náttúruperlur og vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru í Bláskógabyggð og þar af leiðandi er þar eitt landsins mesta álag á vegi. Þingvallavegur, Biskupstungnabraut, Laugarvatnsvegur, Reykjavegur, Kjalvegur, vegurinn um Eystri Tunguna og vegurinn frá Brúarhlöðum að Biskupstungnabraut eru vegir í Bláskógabyggð sem þarfnast gífurlega viðhalds. Það er ekki hægt að bíða lengur með að byggja þá upp og búa þannig um hnútana að þeir beri alla þá umferð sem um þá fer dags daglega. Samkvæmt úttekt sem viðurkenndir aðilar hafa gert er hluti af þessum vegum sem að ofan eru taldir meðal hættulegustu vega á landinu ef horft er til tíðni umferðaslysa.

Mikilvægt að dreifa álaginu

Það er gríðar mikilvægt að hægt verði að dreifa álagi á þessa vegi sem mest um aðrar leiðir. Dæmi um slíka leið er Reykjavegur (355), sem liggur á milli Laugarvatnsvegar og Biskupstungna­brautar. Reykjavegurinn hefur verið á samgönguáætlun í mörg ár en alltaf þegar á að fara í framkvæmdir hefur verkinu verið frestað og hafa ýmsar ástæður verið nefndar í gegnum tíðina. Reykjavegurinn skiptir miklu máli fyrir okkur íbúa í sameinuðu sveitarfélagi þar sem hann tengir saman þéttbýlisstaðina Laugarvatn og Reykholt. Vegurinn er hættulegur á köflum og um hann fer mikil umferð. Til stóð að bjóða Reykjaveginn út í haust og hefja framkvæmdir árið 2016. En samkvæmt nýjum fjárlögum er framkvæmdum enn frestað um óákveðinn tíma þar sem Vegagerðin fær ekki nægilegt fjármagn til að getað farið í þessa nauðsynlegu framkvæmd.

Slysum á þjóðvegum landsins fjölgar, margar ástæður eru þar að baki, m.a. viðhald vega. Í Bláskógabyggð er ástand sumra vega þannig að slysahætta er veruleg. Vegaxlir eru víða farnar að gefa sig, vegir eru slitnir og regnvatn safnast í polla og rásir með þeirri hættu sem slíkt getur haft í för með sér. Mikil umferð langferðabíla fer eftir öllum þessum vegum og margir telja að þess sé ekki langt að bíða að stórt rútuslys verði. Það væri ekki gott fyrir ferðaþjónustuna ef það orð fer að fara af Íslandi að vegakerfið sé hrunið og beinlínis hættulegt sé að ferðast um landið. Ekki viljum við að sú staða komi upp.

Ríkisvaldið þarf nauðsynlega að setja meira fjármagn í samgöngumál, það þarf að gera þarf meira og betur en gert er ráð fyrir í næstu fjárlögum. Ég trúi ekki öðru en að samstaða sé um það mál því það er mikið í húfi að strax sé farið í að byggja vegakerfið upp áður en ferðamönnum fjölgar eins og spár gera ráð fyrir. Það hefur aldrei þótt gott að láta taka sig í bólinu eins og ráðherra ferðamála hefur bent á.




Skoðun

Sjá meira


×