Innlent

Varar við væntingum um afturvirkni bóta

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson ræðir við mótmælendur fyrir utan Alþingishúsið á dögunum.
Bjarni Benediktsson ræðir við mótmælendur fyrir utan Alþingishúsið á dögunum. Vísir/Anton
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að stjórnvöld ætli að verja 100 milljörðum til að hækka lífeyrisbætur á næsta ári. Bætur séu að hækka um 9,7 prósent og lífeyrisþegar muni hafa meiri kaupmátt á næsta ári en nokkru sinni áður.  

Bjarni sagði í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að stjórnvöld viti mætavel að margir lífeyrisþegar hafi það ekki gott og stjórnvöld vilji gjarnan gera betur. Hann bendir þó jafnframt á að það sé líka til fólk sem vinni allan daginn en hafi þó ekki meira milli handanna.

„Það er líka til fólk sem að er í fullu starfi, vaknar snemma á morgnanna og vinnur allan daginn við að hafa í sig og á og sitt fólk. Það hefur ekki meira á milli handanna en þeir sem treysta á bæturnar.“

Bjarni segir að aldrei hafi verið settir meiri fjármunir í að hækka bætur eða um 100 milljarðar króna og kaupmáttur hafi aldrei verið betri.

„Þær eru að hækka um 9,3 prósent núna um áramótin og við sjáum það að með þeirri hækkun sem varð í upphafi árs, 3 prósent, þá eru bætur að hækka umfram það sem laun eru að jafnaði að hækka á þessu tólf mánaða tímabili,“ sagði Bjarni.

Og að síðustu varaði Bjarni við væntingum um að stjórnvöld myndu semja um afturvirkni bóta. „Menn eiga ekki að hafa væntingar um að við tökum nú í þessari fjárlagaumræðu ákvörðun umfram það sem nú þegar hefur verið boðað. Það er ekki við því að búast.“

Spjall þeirra Sigurjóns M. Egilssonar má heyra í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×