Innlent

Unnið að því að koma farveginum í rétt horf áður en óveðrið skellur á

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
mynd/Auðbergur Gíslason
Átján Eskfirðingar úr sex húsum sem rýmd voru í gærkvöldi vegna skriðuhættu, fengu að snúa aftur til síns heima í morgunsárið. Óttast var að aurskriður gætu fallið á húsin þar sem Grjótá var komin úr farvegi sínum. Unnið er að því að koma henni í farveginn á ný.

„Það voru menn að vinna fram á nótt við að laga þennan árfarveg okkar sem hljóp hér í gærkvöldi, og byrjuðu svo aftur í morgun. Nú er bara að nota tímann við að laga árfarveginn sem aflagaðist mjög mikið. Það hrundi mikið úr bökkunum, stórgrýti og gríðarlegt magn af jarðvegi,“ segir Jónas Vilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Eskifirði. Hann segir mildi að ekkert tjón hafi orðið.

„Það eru engar skemmdir sem við vitum af. Það gæti verið eitthvað lítilsháttar en sem betur fer urðu engar skemmdir á húsum, og engan sakaði,“ segir hann.

Miklu óveðri er spáð á Austurlandi í nótt og er því allt kapp lagt á að klára verkið hið fyrsta. Viðbragðsaðilar; lögregla, almannavarnir og aðgerðarstjórn, hafa fundað stíft um stöðu mála í dag. Jónas segir erfitt verkefni fyrir höndum.

„Núna er unnið að því að koma ánni í horf þannig að hún geti tekið við meira vatni, því það byrjar að rigna hér aftur í kvöld með miklu óveðri sem á að ganga hér yfir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×