Innlent

Tugir farþega Icelandair urðu strandaglópar í Bergen

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Farþegarnir fóru með flugi Icelandair frá Bergen á hádegi í dag, sólarhring síðar en áætlað var, og lenti vélin í Keflavík núna í eftirmiðdaginn.
Farþegarnir fóru með flugi Icelandair frá Bergen á hádegi í dag, sólarhring síðar en áætlað var, og lenti vélin í Keflavík núna í eftirmiðdaginn. vísir/anton brink
Flugi Icelandair sem fara átti frá Bergen í Noregi til Keflavíkur klukkan 12 á hádegi í gær var aflýst með þeim afleiðingum að tugir farþega urðu strandaglópar í borginni. Biðu farþegarnir í allt að átta klukkutíma á flugvellinum áður en í ljós kom að ekkert yrði af fluginu til Íslands.

Að því er fram kemur á heimasíðu Keflavíkurflugvallar átti flugvél Icelandair að fara héðan til Bergen klukkan 8 í gærmorgun en fór ekki í loftið fyrr en 11.25. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair varð töfin vegna veðurs í Bergen en flugvellinum þar var lokað um tíma sem varð til þess að ekki var hægt að lenda á vellinum.

Flugvél Icelandair fór því til Stavangurs en undir venjulegum kringumstæðum hefði hún fyrst lent í Bergen, síðan flogið til Stavangurs og þaðan til Keflavíkur. Í Stavangri freistaði áhöfnin þess að bíða af sér veðrið í Bergen en eftir því sem tíminn leið varð ljóst að ekki yrði hægt að fljúga til Bergen og þaðan Keflavíkur vegna reglna um hvíldartíma flugáhafna.

Því var tekin ákvörðun um að fljúga frá Stavangri til Keflavíkur sem þýddi að þeir farþegar sem ætluðu frá Keflavík til Bergen þurftu að komast þangað með öðrum flugfélögum. Þá þurftu þeir farþegar sem voru fastir í Bergen að dvelja á hóteli í nótt en Icelandair greiddi fyrir gistingu og mat sem og fargjaldið fyrir þá sem þurftu að fara frá Stavangri til Bergen.

Farþegarnir fóru svo með flugi Icelandair frá Bergen á hádegi í dag, sólarhring síðar en áætlað var, og lenti vélin í Keflavík núna í eftirmiðdaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×