Innlent

Sigurjón á Sprengisandi: Enn og aftur erum við tekin í bólinu

Sigurjón M. Egilsson
Sigurjón M. Egilsson
„Ég fékk aulahroll í meira lagi þegar sjónvarpsstöðvarnar sögðu frá og birtu viðtöl við erlenda ferðamenn sem kusu að koma hingað til okkar um jólin. Þeir sögðu frá vanda sínum við að fá að borða. Svo var að skilja að víðast hvar hafi þeir komið að luktum dyrum, veitingahús voru flest, varla öll, lokuð á aðfangadaskvöld. Einhverjir ferðamannana höfðu komist yfir samlokur með skinku og osti á aðfangadagskvöld," sagði Sigurjón M. Egilsson í inngangi sínum að þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun

Sigurjón bætti við að enn og aftur værum við tekin í bólinu.

„Í margar vikur voru sagðar fréttir af því að aldrei hafi eins margir erlendir ferðamenn ákveðið að koma til Íslands um jól og áramót. Öllum átti og öllum mátti vera ljóst að hverju stefndi. Að enn eitt metið í ferðaþjónustu yrði slegið nú um hátíðarnar. En það dugði ekki til. Mér virðist sem hvergi hafi verið mat að fá."

Þetta hafi gerst þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi bætt við stofnun, rannsóknarmiðstöð ferðamála, þar sem ráðinn hafi verið framkvæmdastjóri úr innstu röðum flokks ráðherra ferðamála. 

„Sá fær væntanlega það verkefni að rannsaka hvers vegna ekki var hlustað á spár um komu erlendra ferðamanna hingað um jól og áramót og viðbrögðin því nánast engin. Hversu óhöndulega okkur ætlast að bregðast við vinsældum Íslands sem ferðamannalands er reyndar merkur kafli sem þarf að skrifa."

Að lokum sagði Sigurjón ábyrgðin á því hversu illa við stöndum okkur í þessum efnum vera á herðum margra. 

„Mesta á ábyrgð ráðherra ferðamála. Þar verður að gera betur. Ekki í vor, ekki í sumar, heldur núna. Byrja af afli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×