Innlent

Víða blint vegna skafrennings

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Víða verður blint á vegum í dag vegna skafrennings og þá ekki síst á fjallvegum.
Víða verður blint á vegum í dag vegna skafrennings og þá ekki síst á fjallvegum. vísir/vilhelm
Búist er við stormi suðaustanlands í dag og er reiknað með að hviður við Hornafjörð nái 30-35 metrum á sekúndu, að því er kemur fram í athugasemd veðurfræðings á veg Vegagerðarinnar. Allhvöss eða hvöss norðaustanátt verður á landinu í dag og verður snjókoma og síðar él á Norður-og Austurlandi.

Víða verður því blint vegna skafrennings, ekki síst á fjallvegum, allt frá Bröttubrekku og Holtavörðuheiði í suðri, vestur um á Firði og austur á Fagradal og Oddsskarð.

Færð og aðstæður á vegum:

Lokað er um Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu.

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut en snjóþekja nokkuð víða á leiðum í kringum Keflavík.

Það er snjóþekja á Hellisheiði en hálka í Þrengslum. Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Suðurlandi en þæfingsfærð á Suðurstrandarvegi og einnig frá Selfossi að Þjórsá og á Stokkseyrarvegi.

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum. Á Bröttubrekku er snjóþekja og stórhríð. Ófært er á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði sem og á Innstrandarvegi. Þungfært og skafrenningur er á Kleifarheiði. Ófært er á Þröskuldum og einnig á Klettsháls og þar er óveður.

Á Norðurlandi er hálka og skafrenningur eða éljagangur á flestum leiðum. Hálka og stórhríð er í kringum Blönduós. Ófært er á Þverárfjalli og á Siglufjarðarvegi. Þæfingur og stórhríð er í Kinninni og á Hólsheiði . Frá Mývatni og yfir fjöllin til Egilsstaða er þæfingsfærð á Mývatnsöræfum en snjóþekja eða hálka og skafrenningur á Möðrudalsöræfum.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja en þungfært og stórhríð á Fjarðarheiði. Lokað er á Fagradal en ófært á Vatnskarði eystra.

Með suðausturströndinni er víða orðið greiðfært en eitthvað er um hálku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×