Innlent

Færðu öllum börnum í Kulusuk jólagjöf

Svavar Hávarðsson skrifar
Það voru alls 55 krakkar sem tóku á móti íslenska hópnum sem heimsótti Kulusuk í vikunni.
Það voru alls 55 krakkar sem tóku á móti íslenska hópnum sem heimsótti Kulusuk í vikunni. Myndir/Hrókurinn
Liðsmenn Hróksins og Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, komu færandi hendi til bæjarins Kulusuk á Grænlandi á þriðjudag og færðu öllum börnum bæjarins jólagjafir. Þetta er þriðja ferð félagsmanna til Kulusuk á þessu ári og sú sjötta til Grænlands þar sem skák, vinátta og gleði eru í forgrunni.

Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, skrifar að börnin í Kulusuk hafi tekið á móti jólasveinum félaganna með söng og gleði þegar efnt var til sérstakrar hátíðar í grunnskólanum í þessum næsta nágrannabæ Íslands. Öll börnin í leik- og grunnskóla bæjarins fengu sérmerktan jólapakka með margvíslegum glaðningi, sem fjölmörg íslensk fyrirtæki og einstaklingar lögðu til.

„Hrókurinn og Kalak færa öllum þeim fjölmörgu sem lögðu sitt af mörkum til jólapakkaferðarinnar til Kulusuk dýpstu þakkir,“ skrifar Hrafn.

Allir fengu sérmerkta pakka og gleðin var fölskvalaus.
Í grunnskólanum í Kulusuk eru nú 45 börn og 10 börn í leikskólanum. Jólapakkaferðin til Kulusuk markar lok á frábæru starfsári hjá Hróknum og Kalak, segir Hrafn. Félögin hafa staðið fyrir sex ferðum á þessu ári til Grænlands til að útbreiða fagnaðarerindi skáklistar, gleði og vináttu, og í september kom tíundi hópur 11 ára barna frá litlu þorpunum á Austur-Grænlandi til Íslands til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi.

Hátíð var í bæ í skólanum í Kulusuk – enda góðir vinir í heimsókn í þriðja skiptið á árinu sem er að líða.
Hrafn segir jafnframt að Justine Boassen skólastjóri og hennar fólk í Kulusuk hafi tekið jólasveinunum frá Íslandi tveim höndum og voru hinir íslensku gestir líka leystir út með gjöfum. Heimsókin var afar vel skipulögð af hálfu skólans.

Kraftmikið starf er fram undan á Grænlandi. Í janúar verður Toyota-skákhátíð haldin í Nuuk, í febrúar verður Polar Pelagic-hátíð á Ammassalik-svæðinu, um páskana liggur leiðin til Ittoqqortoormiit og í maí verður Flugfélagshátíð í Nuuk. Þá eru einnig fyrirhugaðar skákhátíðir í Ilulissat og Kangerlussuaq.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×