Viðskipti innlent

Vilja að Ísland endurskoði viðskiptabann á Rússland

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
„Það er ekki eðlilegt að sjávarútvegurinn beri hitann og þungann af utanríkisstefnu Íslands í þessu máli,“ segja SA.
„Það er ekki eðlilegt að sjávarútvegurinn beri hitann og þungann af utanríkisstefnu Íslands í þessu máli,“ segja SA. vísir/afp
Samtök atvinnulífsins vilja að íslensk stjórnvöld endurskoði stuðning sinn við viðskiptabann ESB og Bandaríkjanna á Rússland. Þau telja bannið hafa haft mjög neikvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf og áætla að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi og landbúnaði verði af um fimmtán milljarða króna tekjum á ári vegna stuðnings stjórnvalda við það.

Þá hafi áhrif á vöruútflutning þeirra þjóða sem styðja bannið hafa verið hlutfallslega mest á Íslandi, en ESB hefur nú framlengt bannið um sex mánuði, en til stóð að það félli niður í lok janúar 2016.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að þau hafi skilning á alvarlegri stöðu mála í Úkraínu og að framferði Rússa þar og á Krímgskaga verði ekki látið óátalið. Hins vegar séu það vonbrigði að ESB hafi ekki ljáð máls á aðgerðum til að draga úr neikvæðum áhrifum stuðnings Íslands við viðskiptabannið, til dæmis með auknum markaðsaðgangi fyrir íslenskar sjávarafurðir.

„Íslandi ber að standa með bandalagsþjóðum sínum. Það er þo ekki forsvaranlegt að gífurlegur kostnaður af þessum táknrænu aðgerðum Íslands í utanríkismálum leggist nánast alfarið á eina atvinnugrein, án þess að gripið sé til nokkurra mótvægisaðgerða til að lágmarka tjónið,“ segir í tilkynningunni. Lágmarkskrafa sé að íslensk stjórnvöld skilyrði áframhaldandi stuðning við viðskiptabannið við það að á móti komi aukinn markaðsaðgangur að Evrópumarkaði fyrir sjávarafurðir.

„Það er ekki eðlilegt að sjávarútvegurinn beri hitann og þungann af utanríkisstefnu Íslands í þessu máli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×