Erlent

Milljón flóttamenn komnir til Evrópu

Guðsteinn Bjarnasson skrifar
Flóttafólk kemur til Aþenu í Grikklandi frá eyjunum Lesbos og Kíos, þangað sem fólkið sigldi frá Tyrklandi.
Flóttafólk kemur til Aþenu í Grikklandi frá eyjunum Lesbos og Kíos, þangað sem fólkið sigldi frá Tyrklandi. Nordicphotos/AFP
Á þessu ári hefur meira en milljón flóttamanna komið til Evrópu. Frá þessu skýra bæði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Alþjóðastofnun um farandfólk (IOM) í sameiginlegri fréttatilkynningu.

Þann 21. desember voru 972.500 komnir sjóleiðina yfir Miðjarðarhafið en 34.000 landleiðina frá Tyrklandi yfir til Búlgaríu eða Grikklands.

Samtals er ein milljón manns eitthvað um það bil 0,2 prósent af heildaríbúafjölda aðildarríkja Evrópusambandsins, eða tæplega 0,15 prósent af íbúafjölda allra Evrópuríkja samtals.

Til samanburðar má einnig nefna að í Tyrklandi einu eru um það bil 2,2 milljónir flóttamanna frá Sýrlandi og í Líbanon er um 1,1 milljón sýrlenskra flóttamanna.

Flestir þeirra sem komnir eru til Evrópu fóru sjóleiðina, eða meira en 800 þúsund manns, hafa ferðast yfir Eyjahafið frá Tyrklandi til Grikklands. Um 150 þúsund fóru hins vegar lengri sjóleiðina frá norðanverðri Afríku yfir til Ítalíu.

Nærri helmingurinn, um hálf milljón manns, er kominn frá Sýrlandi, um það bil 200 þúsund frá Afganistan og um 70 þúsund frá Írak.

Alls er talið að nærri 4.000 manns hafi drukknað á leiðinni yfir Miðjarðarhafið, eða er að minnsta kosti enn saknað.

Antonio Guterres, yfirmaður Flóttamannastofnunarinnar, bendir á að flóttafólkið hafi margt mikilvægt fram að færa í þeim löndum, sem það flytur til.

„Nú þegar andúð á útlendingum fer vaxandi sums staðar, þá er mikilvægt að átta sig á því góða framlagi sem flóttafólk og farandfólk kemur með til samfélagsins sem það býr í,“ er haft eftir Guterres í tilkynningu frá UNHCR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×