Innlent

Spá yfir 20 stiga frosti í Reykjavík á jóladag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það ætti að vera hægt að renna sér á skautum á Tjörninni um jólin.
Það ætti að vera hægt að renna sér á skautum á Tjörninni um jólin. vísir/daníel
Afar kalt verður um land allt á aðfangadag og jóladag ef marka má veðurspá Veðurstofu Íslands. Þannig er spáð 11 stiga frosti í Reykjavík klukkan 18 á aðfangadag, 15 stiga frosti á Patreksfirði, 10 stiga frosti á Akureyri og 9 stiga frosti á Kirkjubæjarklaustri.

Á hádegi á jóladag er svo spáð hvorki meira né minna en 21 stiga frosti í Reykjavík.

„Já, það er kuldakast að skella á landinu. Frostið harðnar á aðfangadag en ætli það verði ekki kaldast á jóladag og jafnvel á annan í jólum,“ segir Haraldur Eiríksson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Þá er spáð snjókomu víða um land dagana fyrir jól, meðal annars á suðvesturhorninu, en Haraldur segir að það verði þó ekki álíka fannfergi á höfuðborgarsvæðinu og var í byrjun mánaðarins.

Það verður að mestu þurrt á Suður-og Suðvesturlandi á aðfangadag en búast má við lítilsháttar snjókomu á Norður-og Austurlandi samkvæmt spánni. Á jóladag er svo spáð norðlægri eða breytilegri átt og bjart með köflum, en él við norðausturströndina og einnig syðst á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×