Erlent

Verri stormar en áður hafa þekkst frá El Niño

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Argentínumaður rær bát sínum um stræti borgarinnar Concordia. Mikil flóð hafa skollið á borginni.
Argentínumaður rær bát sínum um stræti borgarinnar Concordia. Mikil flóð hafa skollið á borginni. Nordicphotos/AFP
Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) varar við því að El Niño-veðurfyrirbrigðið, sem nú hefur farið að láta á sér kræla, gæti valdið verstu stormum í sögu fyrirbrigðisins.

El Niño er margra mánaða langt ástand með víðáttumiklum sjávarhitafrávikum í austanverðu Kyrrahafi sem veldur gríðarlegum, oft mannskæðum, veðursveiflum. Ástandið kemur upp á tveggja til sjö ára fresti og varir venjulega í rúmt ár.

Áður hefur ástandið náð hápunkti sínum undir lok ársins en NASA segir að ekkert bendi til þess að draga fari úr ástandinu nú og segir stöðuna svipaða og árið 1997 en El Niño hefur aldrei valdið verri stormum en þá.

Nú þegar hefur El Niño valdið umfangsmestu flóðum í hálfa öld í Paragvæ, Argentínu, Úrúgvæ og Brasilíu. Yfir 150 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín, þar af rúmlega hundrað þúsund í Asunción, höfuðborg Paragvæ. Þá létust þrettán í Missouri-fylki Bandaríkjanna eftir að ár flæddu yfir bakka sína í kjölfar ofsaveðurs.

Einnig greina veðurfræðingar BBC frá því að El Niño eigi þátt í miklum stormum sem skollið hafa á Bretlandi undanfarið með tilheyrandi flóðum sem hafa valdið því að þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Sömuleiðis á El Niño að hafa átt þátt í ofsaveðrinu sem skall á austurströnd Íslands í fyrrinótt.

Alþjóðasamtökin Oxfam, sem berjast gegn fátækt, hafa lýst yfir áhyggjum sínum af því að stormarnir gætu valdið hungursneyð víðs vegar í Afríku, til að mynda í Eþíópíu, auk þess að auka á eymdina á stríðshrjáðum svæðum á borð við Sýrland, Suður-Súdan og Jemen.

Veðurfyrirbrigðið hefur einnig valdið því að hitastig víða um heim hefur verið með óvenjulegu móti. Til að mynda var óvenju hlýtt í Evrópu um jólin og var Reykjavík eina höfuðborg álfunnar sem fagnaði hvítum jólum. Þá hefur hiti einnig læðst niður fyrir frostmark í eyðimörkum Mexíkó og snjóaði til að mynda í Sonora-eyðimörkinni í fyrsta sinn í 33 ár.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) hefur þó bent á að El Niño sé ekki eina orsök furðulegs veðurfars undanfarið heldur leiki loftslagsbreytingar af mannavöldum þar stórt hlutverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×