Innlent

Strawberries þarf að greiða dæmdum nauðgara vangoldin laun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn, Ingvar Dór Birgisson, hóf störf hjá Strawberries sumarið 2010 og rak barinn allt þar til um mánaðarmótin apríl maí 2011.
Maðurinn, Ingvar Dór Birgisson, hóf störf hjá Strawberries sumarið 2010 og rak barinn allt þar til um mánaðarmótin apríl maí 2011. Vísir/Stefán
Veitingahúsið Lækur, sem rak meðal annars „selskapsdömustaðinn“ Strawberries í Lækjargötu, hefur verið dæmt til að greiða fyrrum starfsmanni vangoldin laun að upphæð rúmlega 1,3 milljóna króna auk dráttarvaxta. Maðurinn rak barinn á Strawberries í tæpt ár en var sagt upp störfum. Vinnuveitendur báru því við að hann hefði farið frjálslega með debetkort í eigu staðarins.

Maðurinn, Ingvar Dór Birgisson, hóf störf hjá Strawberries sumarið 2010 og rak barinn allt þar til um mánaðarmótin apríl maí 2011. Þá var óskað eftir því að hann skilaði af sér debetkorti, farsíma og lyklum sem hann hafði vegna starfs síns. Var ástæðan sögð sú að verið væri að rannsaka hvort notkun hans á debetkorti staðarins hefði farið út fyrir mörk. Málið var kært til lögreglu í nóvember 2011 en lögregla hætti rannsókn málsins í september 2012.

Maðurinn fór fram á að fá greidd laun vegna ólögmætrar uppsagnar auk orlofsgreiðslna samanlagt að upphæð 1,6 milljóna króna. Féllst héraðsdómur á að uppsögnin hefði verið ólögmæt enda hefði ekki verið sannað að maðurinn hefði brotið af sér í starfi. Forsvarsmenn Læks þyrftu því að greiða honum rúmar 1,3 milljónir króna auk dráttarvaxta. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem staðfesti dóminn.

Maðurinn var á dögunum dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot sem átti sér stað gagnvart fjórtán ára stúlku vorið 2010. Flúði hann meðal annars land á meðan á rannsókn málsins stóð en var framseldur til Íslands í júní. Var hann dæmdur til að greiða henni eina milljón króna í bætur. Þá er hann grunaður um kynferðisbrot gagnvart annarri fjórtán ára stúlku.

Uppfært 19:00

Upprunalega stóð hér að maðurinn hefði rekið Strawberries, en rétt er að hann rak barinn á staðnum, eins og stendur í dómnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×