Michael Phelps snéri aftur í sundlaugina í gær og gerði það með stæl.
Phelps er nýbúinn að afplána sex mánaða bann sem hann fékk fyrir að vera handtekinn drukkinn undir stýri.
Phelps kom fyrstur í mark í 100 metra flugsundi á 52,38 sekúndum og var á undan landa sínum, Ryan Lochte, sem kom í mark á 53,11 sekúndum.
Góður sigur hjá Phelps þó tíminn sé ekki einn af tíu bestu á árinu. „Þetta er eitthvað til að byggja á," sagði Phelps léttur eftir sundið.
Phelps hefur frekar óvænt sett stefnuna á ÓL í Ríó á næsta ári. Hann er sigursælasti keppandi í sögu Ólympíuleikanna með 22 verðlaun.
Hann mun ekki fá að synda á HM í Rússlandi í ágúst þó svo hann sé augljóslega orðinn nógu góður til þess.
