Lífið

Vítaspyrnukeppni til góðs: Flugmiði fyrir tvo í verðlaun

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gulli verður í markinu.
Gulli verður í markinu. vísir/stefán
Á miðvikudaginn, 17. Júní, mun fara fram vítaspyrnukeppni á gervigrasvelli Vals á Hlíðarenda og um leið gefst fólki kostur á að styðja gott málefni.

Keppnin fer fram klukkan tvö og er það vefsíðan Fótbolti.net sem stendur fyrir keppninni.

Þátttökugjald er 1000 krónur en allur ágóði rennur í ferð á fótboltaleik erlendis fyrir Vildarbörn Icelandair. Vildabörn Icelandair eru sameiginlegt átak Icelandair og viðskiptavina til stuðnings veikum börnum og fjölskyldum þeirra.

Þetta er annað árið í röð sem Fótbolti.net heldur vítaspyrnukeppni en í fyrra söfnuðust 242 þúsund krónur sem Umhyggja fékk að gjöf.

Sigurvegarinn í keppninni fær tvo flugmiða frá Icelandair. Adidas mun einnig gefa takkaskó í verðlaun og efstu keppendurnir fá að eiga bolta frá Adidas sem verða notaðir í keppninni.

Markverðir úr Pepsi-deildinni og 1. deildinni munu standa á milli stanganna líkt og í fyrra.

Keppt er þar til að einn sigurvegari stendur eftir og hann verður vítaskytta Íslands árið 2015.

Keppni hefst klukkan 14:00 en skráning verður á staðnum og hefst hún klukkan 13:30. Ekkert aldurstakmark er í keppninni sem er opin öllum.

Hér má kynna sér keppnina nánar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×