„Það tekur alltaf á að landa góðum leikmönnum,“ sagði Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, aðspurður hvort það hafi reynst erfið fæðing að ná samningum við danska liðið FCK um félagaskipti sóknarmannsins Kristjáns Flóka Finnbogasonar. Þessi nítján ára kappi gerði í gær þriggja ára samning við Breiðablik.
Eysteinn sagði að samningurinn við FCK væri trúnaðarmál. „Þetta var tveggja vikna ferli og samningar náðust í gær [í fyrradag]. En ég get ekki tjáð mig um innihald hans,“ segir hann en Kristján Flóki hefur æfingar með Blikum þann 1. apríl.
„Við höfum verið í leit að framherja síðan Árni Vilhjálmsson fór [til Lilleström] og Elfar Árni [Aðalsteinsson] samdi við KA. Þegar við heyrðum af Kristjáni Flóka vildum við fá hann og við erum ánægðir með að það tókst.“
Íslenski boltinn