Körfubolti

NBA: Durant og Westbrook skoruðu 66 stig í sigri OKC

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Oklahoma City Thunder er í tíunda sæti vesturdeildarinnar í NBA eftir erfiða byrjun á tímabilinu, en það færist nú nær úrslitakeppninni með hverjum sigrinum á fætur öðrum.

OKC vann tíu stiga útisigur á Denver Nuggets í nótt, 124-114, þar sem Kevin Durant og Russell Westbrook skoruðu samtals 66 stig.

Durant skoraði 40 stig og hitti úr sjö af tólf þriggja stiga skotum sínum á meðan Westbrook skoraði 22 stig og gaf þess að auki 9 stoðsendingar og tók 5 fráköst. Wilson Chandler var stigahæstur heimamanna með 22 stig.

Golden State Warriors heldur 3,5 leikja forskoti á toppi vestursins eftir fimm stiga útisigur á hinu ömurlega liði Philadelphia 76ers, 89-84.

Skvettubræðurnir Stephen Curry og Klay Thompson voru einu með lífsmarki í byrjunarliðinu og skoruðu 20 og 13 stig en aðrir minna. Til allrar hamingju fyrir toppliðið komu Leandro Barbosa (16), Andre Iguodala (13) og Marreese Speights (10) sterkir inn af bekknum.

Atlanta Hawks er með mun öruggari forystu á toppi austurdeildarinnar, en Haukarnir völtuðu yfir Minnesota Timberwolves á útivelli í nótt, 117-105.

Al Horford var óviðráðanlegur undir körfunni og skoraði 26 stig og tók 8 fráköst en Paul Millsap gældi við þrennuna með 19 stigum, 9 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Úrslit næturinnar:

Indiana Pacers - San Antonio Spurs 93-95

Philadelphia 76ers - Golden State Warriors 84-89

Washington Wizards - Orlando Magic 96-80

Miami Heat - New York Knicks 109-85

Milwaukee Bucks - Brooklyn Nets 103-97

Minnesota Timberwolves - Atlanta Hawks 105-117

New Orleans Pelicans - Utah Jazz 96-100

Dallas Mavericks - LA Clippers 98-115

Denver Nuggets - OKC Thunder 114-124

Staðan í deildinni.

Glæsileg sending John Wall á Nene:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×