Innlent

Ódýra vínið hækkar en það dýra lækkar í verði

Sveinn Arnarsson skrifar
vísir/gva
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um að færa allt áfengi í lægra virðisaukaskattsþrep mun hækka verð á ódýru áfengi en lækka verð á dýrara áfengi. Í frumvarpinu er lagt til að færa áfengi í eitt þrep en hækka áfengisgjald á móti svo tekjur ríkisins skerðist ekki við breytinguna.

Félag atvinnurekenda segir áfengisgjöld hér á landi með þeim hæstu í heimi og nú eigi að hækka þau gjöld meira með þessum breytingum.

„Innflytjendur og framleiðendur eru ekkert sérstaklega hressir með að þessi aðgerð hækki verðið á vörum þeirra,“ segir Ólafur Þ. Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Félag atvinnurekenda vekur athygli á því í umsögn um bandorminn svokallaða, sem nú liggur fyrir Alþingi, að þessi breyting gæti hækkað verð ýmsum tegundum af víni. „Þótt breytingin eigi ekki að auka tekjur ríkissjóðs, kemur hún út með mismunandi hætti í ólíkum styrkleika- og verðflokkum áfengis. Þannig munu ódýrari léttvín og „kassavín“ hækka í verði, en dýrari vín lækka. Sterkt áfengi mun ennfremur í mörgum tilvikum hækka í verði,“ segir í umsögn félags atvinnurekenda.

Verði þessar breytingar samþykktar getur léttvín í kassa hækkað um þrjú hundruð krónur og flaska af vodka gæti hækkað um sem nemur fimm hundruð krónum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×