Tomas Lindahl frá Svíþjóð, Paul Modrich frá Bandaríkjunum og Aziz Sancar frá Tyrklandi fá Nóbelsverðlaunin í efnafræði í ár fyrir rannsóknir sínar á því hvernig frumur líkamans gera við skemmdir á DNA-kjarnsýrunum, sem hafa að geyma erfðaefni lífverunnar.
Sænska Nóbelsnefndin segir rannsóknir þeirra hafi aukið mjög skilning á því hvernig frumur starfa. Þá hafi þeir bæði útskýrt orsakir margra erfðasjúkdóma og varpað ljósi á þróun krabbameins og öldrunar.
Ein niðurstaða þeirra er sú, að krabbameinsfrumur verða óútreiknanlegar og fjölga sér stjórnlaust vegna þess að viðgerðarkerfi þeirra hefur brugðist. Þar leynist einmitt veikleiki því veiklað viðgerðarkerfi krabbameinsfrumunnar geti leitt til þess að slíkar frumur deyja í stað þess að fjölga sér.
„Vísindamenn eru að reyna að notfæra sér þennan veikleika við þróun á nýjum krabbameinslyfjum,“ segir í tilkynningu Nóbelsnefndarinnar.
Fundu veikleika í krabbameinsfrumum
Guðsteinn Bjarnason skrifar
