Skoðun

Ríkisstjórnin heldur kjörum aldraðra niðri

Björgvin Guðmundsson skrifar
Ekkert bólar á því, að ríkisstjórnin ætli að bæta kjör aldraðra og öryrkja á þessu ári í kjölfar nýrra kjarasamninga 1. maí. Kjör láglaunafólks voru orðin svo bágborin, að verkalýðshreyfingin og meirihluti þjóðarinnar taldi nauðsynlegt að hækka lágmarkskaup myndarlega.

Sömu rök gilda fyrir nauðsyn þess að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja verulega. Allur þorri almennings telur jafnmikla nauðsyn á að hækka lífeyri þeirra eldri borgara, sem verst eru staddir eins og að hækka lægstu laun. En ríkisstjórnin lætur sér sæma að halda lífeyri óbreyttum, þegar laun allra í þjóðfélaginu eru að hækka! Ríkisstjórnin heldur lífeyri aldraðra og öryrkja niðri í 8 mánuði. Ég veit ekki hvað á að kalla þetta atferli ríkisstjórnarinnar en það er líkast því sem það sé verið að níðast á lífeyrisþegum.

Kjaragliðnun í ár álíka og á öllum krepputímanum!

Þegar kaup allra launþega hækkar en ekki lífeyrir aldraðra og öryrkja verður kjaragliðnun. Lífeyrir aldraðra og öryrkja dregst aftur úr launum. Þetta gerðist á krepputímanum 2009-2013. T.d. hækkuðu laun um 16% árin 2009 og 2010 en lífeyrir aldraðra og öryrkja frá TR hækkaði ekki um eina krónu á sama tímabili. Nú endurtekur sagan sig. Lágmarkslaun hækkuðu um 31.000 kr 1. maí sl. en lífeyrir hækkaði ekki um eina krónu. Kjara­gliðnunin í ár verður álíka og á öllum krepputímanum!

Ráðherrunum finnst þetta í lagi!

Og svo virðist sem ráðherrunum finnist þetta allt í lagi. Þeir kjafta bara um, að lífeyrir eigi að hækka einhver ósköp seinna, 8 mánuðum seinna en laun hækkuðu! Og forsætisráðherrann talar fjálglega um methækkun lífeyris, eitt metið enn! Hann talar um mestu hækkun í sögunni. Aldraðir og öryrkjar hafa hins vegar ekkert gagn af pappírshækkunum. Þeir taka ekkert mark á neinu tali um hækkanir fyrr en þeir finna þær í buddunni. Og það verður ekki í bráð!

Síðan er það ekki rétt, að um einhverja „methækkun“ sé að ræða. Jóhanna Sigurðardóttir hækkaði lífeyri aldraðra og öryrkja um tæp 20% um áramótin 2008/2009, þ.e. þeirra, sem voru verst staddir, og hún hækkaði hjá hinum um 9,6%. Og þetta gerði hún án þess að masa um það í marga mánuði áður en það kom til framkvæmda. Aldraðir krefjast þess að fá hækkun strax. Þeir geta ekki beðið. Það er ekki erfiðara að samþykkja strax hækkun til aldraðra og öryrkja en að samþykkja hátt framlag til móttöku flóttamanna. Afgreiðslan á flóttamannaframlaginu leiðir í ljós, að vilji er allt sem þarf.

Aldraðir fái það sama og launamenn

Láglaunafólk fékk 14,5% hækkun á launum sínum 1. maí og síðan var samið um, að laun verkafólks mundu hækka í 300 þúsund á mánuði á 3 árum. Aldraðir vilja fá nákvæmlega sömu hækkun og á sama tíma. Það var samþykkt á landsfundi LEB og í kjaranefnd FEB. Og þetta er sanngirnis- og réttlætismál.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×