Brezkt leikhús Þorvaldur Gylfason skrifar 8. október 2015 07:00 Leikhús hefur sett ríkan svip á brezkt þjóðlíf í meira en 400 ár. Hér er ég ekki bara að tala um William Shakespeare, mesta leikskáld allra tíma að flestra dómi, heldur einnig um 20. öldina þegar miklu fleiri Bandaríkjamenn fóru til London og fara enn að sækja leikhús en nemur þeim fjölda Breta sem fara leikhúsferðir vestur um haf. Leikhús margra annarra landa stendur einnig fyrir sínu nema hvað. Svisslendingar eiga t.d. heimsfræg leikskáld, að ekki minnzt á þrjú ítölsk leikskáld sem öll fengu bókmenntaverðlaun Nóbels. Hér ætla ég þó að halda mig við Bretland og stikla á stóru.Frá Ibsen til Shaws Henrik Ibsen kveikti í Bretum með því að kveikja í George Bernard Shaw sem var löngu síðar sæmdur bókmenntaverðlaunum Nóbels fyrir leikrit sín, það var 1925. Leikrit Ibsens fjölluðu djarflega um ýmis feimnismál borgaralegs samfélags, t.d. geðveiki, kúgun kvenna, kynsjúkdóma, sjálfsvíg o.fl., sem fáir áræddu annars að nefna nema í hálfum hljóðum. Ibsen þótti hentugt að semja flest verka sinna í Þýzkalandi og á Ítalíu þar sem hann bjó lengi í öruggri fjarlægð frá heimalandi sínu, þótt verk hans kæmust þar á svið, sum seint og um síðir. Bernard Shaw gekk skrefi lengra. Hann samdi, innblásinn af Ibsen, rammpólitísk sviðsverk um samtímann. Leikrit hans eru eins og leikrit Ibsens samræðuverk, textaverk um fólk að tala saman. Þar er engin þörf fyrir leikfimisæfingar og flugeldasýningar af því tagi sem einkenna svo nefndar leikstjórauppfærslur á mörgum textasnauðum leikritum nútímans. Átökin í verkum Shaws eru skoðanaskipti milli manna, átök milli hugmynda og hugarheima, ekki innri barátta. Shaw var áróðursmaður og dró enga dul á það. Með leiftrandi fyndni og flugbeitta greiningargáfu að vopni reyndi hann með leikritum sínum að reyta sem allra flest atkvæði af íhaldinu eins og hann sagði sjálfur. Leikrit hans fengust þó yfirleitt ekki sýnd heima fyrir fyrr en hann var kominn á sextugsaldur. Þar að kom að uppfærslum á leikritum Shaws fækkaði verulega, þótt Shakespeare og Ibsen héldu óskertri hylli. Sumum sýndist þá að djúpsálarfræðin í verkum Shakespeares og Ibsens risti dýpra og entist því betur en hrápólitíkin hjá Shaw, en það átti eftir að breytast aftur. Nú er starfrækt í Kanada, ekki langt frá Toronto, leikhús sem sýnir nær eingöngu leikrit Shaws og fáeinna samtíðarmanna hans fyrir fullu húsi ár eftir ár og hefur gert í hálfa öld. Shaw samdi rösklega 50 sviðsverk, Ibsen innan við 20.Tom Stoppard, David Hare og Peter Morgan Shaw var um sína daga ekki einn um að skrifa leiftrandi samtöl fyrir leiksvið. Oscar Wilde, jafnaldri Shaws eða þar um bil, var einnig vinsæll í ensku leikhúsi, en hann lifði 50 árum skemur en Shaw og skilaði af sér færri verkum og hafði minni áhrif. Yngri leikskáld þóttust um skeið geta gert lítið úr Shaw, en það gera þau ekki lengur. Þvert á móti er Bernard Shaw bersýnilega mikilvægasti áhrifavaldur sumra helztu leikskálda Breta um okkar daga, einkum þeirra Toms Stoppard og Davids Hare. Tom Stoppard er eitt dáðasta leikskáld samtímans og hefur verið að í bráðum hálfa öld. Aðeins eitt verka hans hefur verið sett á svið í atvinnuleikhúsi á Íslandi, Nótt og dagur í Þjóðleikhúsinu 1980. Verk Stoppards bera ýmis einkenni verka Shaws nema þau eru enn fjölbreyttari. Þau fjalla bókstaflega um allt milli himins og jarðar og fljúga fram og aftur um tímann og milli staða: Orð, orð, orð, eins og hjá Shaw, leiftrandi samtöl og tilsvör, en yfirleitt engar predikanir. Sviðsverk Stoppards eru rösklega 30 talsins og eru ekki aðeins sýnd og endursýnd reglulega í Brezka þjóðleikhúsinu og öðrum brezkum leikhúsum, heldur einnig um allan heim, t.d. í Rússlandi. David Hare er tíu árum yngri en Stoppard og enn líkari Bernard Shaw að því leyti að hann er rammpólitískur höfundur. Leikrit hans fjalla m.a. um einkavæðingu brezku járnbrautanna, Englandskirkju, Íraksstríðið (það verk heitir Stuff Happens), njósnir o.m.fl. Áhorfendur flykkjast í leikhúsin að sjá og heyra þessi verk. Enn annað brezkt leikskáld á sömu slóðum er Peter Morgan, rösklega fimmtugur maður sem hefur sett bæði Elísabetu Englandsdrottningu og sjónvarpsviðtöl Davids Frost við Richard Nixon Bandaríkjaforseta á svið, mikið drama. Bæði verkin voru kvikmynduð.Heim til þín, Ísland Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur hefur á þessum stað bent á að Ísland sárvantar kvikmyndir gerðar eftir mörgum helztu bókmenntaverkum þjóðarinnar. Okkur vantar einnig pólitískt leikhús og pólitískar kvikmyndir. Af nógu er að taka. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Menning Þorvaldur Gylfason Mest lesið Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Íslendingar, ekki vera fávitar! Tómas Ellert Tómasson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvert er „útlendingavandamálið“? Karen Kjartansdóttir Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson Skoðun
Leikhús hefur sett ríkan svip á brezkt þjóðlíf í meira en 400 ár. Hér er ég ekki bara að tala um William Shakespeare, mesta leikskáld allra tíma að flestra dómi, heldur einnig um 20. öldina þegar miklu fleiri Bandaríkjamenn fóru til London og fara enn að sækja leikhús en nemur þeim fjölda Breta sem fara leikhúsferðir vestur um haf. Leikhús margra annarra landa stendur einnig fyrir sínu nema hvað. Svisslendingar eiga t.d. heimsfræg leikskáld, að ekki minnzt á þrjú ítölsk leikskáld sem öll fengu bókmenntaverðlaun Nóbels. Hér ætla ég þó að halda mig við Bretland og stikla á stóru.Frá Ibsen til Shaws Henrik Ibsen kveikti í Bretum með því að kveikja í George Bernard Shaw sem var löngu síðar sæmdur bókmenntaverðlaunum Nóbels fyrir leikrit sín, það var 1925. Leikrit Ibsens fjölluðu djarflega um ýmis feimnismál borgaralegs samfélags, t.d. geðveiki, kúgun kvenna, kynsjúkdóma, sjálfsvíg o.fl., sem fáir áræddu annars að nefna nema í hálfum hljóðum. Ibsen þótti hentugt að semja flest verka sinna í Þýzkalandi og á Ítalíu þar sem hann bjó lengi í öruggri fjarlægð frá heimalandi sínu, þótt verk hans kæmust þar á svið, sum seint og um síðir. Bernard Shaw gekk skrefi lengra. Hann samdi, innblásinn af Ibsen, rammpólitísk sviðsverk um samtímann. Leikrit hans eru eins og leikrit Ibsens samræðuverk, textaverk um fólk að tala saman. Þar er engin þörf fyrir leikfimisæfingar og flugeldasýningar af því tagi sem einkenna svo nefndar leikstjórauppfærslur á mörgum textasnauðum leikritum nútímans. Átökin í verkum Shaws eru skoðanaskipti milli manna, átök milli hugmynda og hugarheima, ekki innri barátta. Shaw var áróðursmaður og dró enga dul á það. Með leiftrandi fyndni og flugbeitta greiningargáfu að vopni reyndi hann með leikritum sínum að reyta sem allra flest atkvæði af íhaldinu eins og hann sagði sjálfur. Leikrit hans fengust þó yfirleitt ekki sýnd heima fyrir fyrr en hann var kominn á sextugsaldur. Þar að kom að uppfærslum á leikritum Shaws fækkaði verulega, þótt Shakespeare og Ibsen héldu óskertri hylli. Sumum sýndist þá að djúpsálarfræðin í verkum Shakespeares og Ibsens risti dýpra og entist því betur en hrápólitíkin hjá Shaw, en það átti eftir að breytast aftur. Nú er starfrækt í Kanada, ekki langt frá Toronto, leikhús sem sýnir nær eingöngu leikrit Shaws og fáeinna samtíðarmanna hans fyrir fullu húsi ár eftir ár og hefur gert í hálfa öld. Shaw samdi rösklega 50 sviðsverk, Ibsen innan við 20.Tom Stoppard, David Hare og Peter Morgan Shaw var um sína daga ekki einn um að skrifa leiftrandi samtöl fyrir leiksvið. Oscar Wilde, jafnaldri Shaws eða þar um bil, var einnig vinsæll í ensku leikhúsi, en hann lifði 50 árum skemur en Shaw og skilaði af sér færri verkum og hafði minni áhrif. Yngri leikskáld þóttust um skeið geta gert lítið úr Shaw, en það gera þau ekki lengur. Þvert á móti er Bernard Shaw bersýnilega mikilvægasti áhrifavaldur sumra helztu leikskálda Breta um okkar daga, einkum þeirra Toms Stoppard og Davids Hare. Tom Stoppard er eitt dáðasta leikskáld samtímans og hefur verið að í bráðum hálfa öld. Aðeins eitt verka hans hefur verið sett á svið í atvinnuleikhúsi á Íslandi, Nótt og dagur í Þjóðleikhúsinu 1980. Verk Stoppards bera ýmis einkenni verka Shaws nema þau eru enn fjölbreyttari. Þau fjalla bókstaflega um allt milli himins og jarðar og fljúga fram og aftur um tímann og milli staða: Orð, orð, orð, eins og hjá Shaw, leiftrandi samtöl og tilsvör, en yfirleitt engar predikanir. Sviðsverk Stoppards eru rösklega 30 talsins og eru ekki aðeins sýnd og endursýnd reglulega í Brezka þjóðleikhúsinu og öðrum brezkum leikhúsum, heldur einnig um allan heim, t.d. í Rússlandi. David Hare er tíu árum yngri en Stoppard og enn líkari Bernard Shaw að því leyti að hann er rammpólitískur höfundur. Leikrit hans fjalla m.a. um einkavæðingu brezku járnbrautanna, Englandskirkju, Íraksstríðið (það verk heitir Stuff Happens), njósnir o.m.fl. Áhorfendur flykkjast í leikhúsin að sjá og heyra þessi verk. Enn annað brezkt leikskáld á sömu slóðum er Peter Morgan, rösklega fimmtugur maður sem hefur sett bæði Elísabetu Englandsdrottningu og sjónvarpsviðtöl Davids Frost við Richard Nixon Bandaríkjaforseta á svið, mikið drama. Bæði verkin voru kvikmynduð.Heim til þín, Ísland Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur hefur á þessum stað bent á að Ísland sárvantar kvikmyndir gerðar eftir mörgum helztu bókmenntaverkum þjóðarinnar. Okkur vantar einnig pólitískt leikhús og pólitískar kvikmyndir. Af nógu er að taka.
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun