Fótbolti

Arnór Ingvi lagði upp tvö mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason.
Arnór Ingvi Traustason. Mynd/Heimasíða IFK Norrköping
Keflvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason lagði upp tvö mörk fyrir félaga sína í glæsilegum útisigri IFK Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

IFK Norrköping vann 3-0 sigur á Halmstads BK á Örjans Vall í Halmstad og hefur þar með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Arnór Ingvi Traustason lagði upp skallamark fyrir Filip Dagerstål á 44. mínútu og átti einnig stoðsendinguna þegar Emir Kujovic skoraði á 62. mínútu en þetta voru tvö fyrstu mörk liðsins í leiknum.

Emir Kujovic skoraði síðan þriðja markið úr vítaspyrnu á 75. mínútu og þannig urðu lokatölurnar í leiknum. Arnór Ingvi var út á vinstri kanti hjá Norrköping-liðnu og spilaði allan leikinn.

Jón Guðni Fjóluson og Rúnar Már Sigurjónsson voru báðir í byrjunarliði GIF Sundsvall sem vann 3-2 útisigur á Åtvidabergs FF. Sundsvall komst í 2-0 og 3-1 í leiknum.

Jón Guðni spilaði allan leikinn í miðri vörninni og Rúnar Már var inn á miðri miðjunni hjá liði Sundsvall sem tapaði í fyrstu umferðinni.

Haukur Heiðar Hauksson var allan tímann í hægri bakverðinum þegar AIK gerði markalaust jafntefli á útivelli á mæti sænsku meisturunum í Malmö. AIK hefur fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×