Skoðun

Konur og aðrir sólbaðsstofunuddarar – taka þrjú

Tryggvi Gíslason skrifar
Jón Steinar Gunnlausson er við sama heygarðshornið í Fréttablaðinu í gær og reynir nú að fela sig á bak við kenningar lögfræðinnar um réttarheimildir. Athugasemdir mínar fjölluðu ekki um ákvæði stjórnarskrár um réttarheimildir og að sjálfsögðu eiga dómstólar að leysa úr réttarágreiningi milli manna með því að dæma að lögum.

Á stundum þurfum við kennarar að endurtaka fyrir nemendum sem geta ekki – eða vilja ekki skilja það sem við þá er sagt. Af þeim sökum verð ég að endurtaka þrjú meginatriði í málflutningi mínum í deilum okkar Jóns Steinars:

Í fyrsta lagi: Krafa nútíma lýðræðis, þar sem jafnrétti á öllum sviðum er hornsteinninn, er að konur komi alls staðar að málum þar sem velferð þegna lýðræðissamfélags er ráðin – til jafns við karlmenn.

Í öðru lagi: Það er rangt að bera saman lækna, iðnaðarmenn, verkamenn, veitingamenn og sólbaðsstofunuddara annars vegar og konur hins vegar, eins og Jóns Steinar gerir. Konur eru menn – ekki starfsstétt.

Í þriðja lagi: Landslög eru mannasetningar – ekki óskeikul guðs lög, enda þótt lögin verði að vera forsenda fyrir starfi dómstóla. En vegna þess að lögin eru ekki óskeikul fæst lagalega rétt niðurstaða ekki alltaf – skoðanir á túlkun laganna eru skiptar og hin lagalega rétta niðurstaða er ekki aðeins ein, eins og Jón Steinar heldur fram. Það er líka þess vegna sem Jón Steinar, fyrrverandi hæstaréttardómari, gerir athugasemdir í rammagrein í miðopnu Morgunblaðsins í gær við niðurstöður Hæstaréttar sl. fimmtudag í máli gegn fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×