Bíó og sjónvarp

Ein frábær frumraun: „Ætlaði upphaflega að skrifa skemmtilegt hlutverk fyrir mig“

Guðrún Ansnes skrifar
Menn þurfa að hafa sig alla við til að komast aftur niður á jörðina eftir draumkennt frumsýningarpartí. Hrós á hrós ofan.
Menn þurfa að hafa sig alla við til að komast aftur niður á jörðina eftir draumkennt frumsýningarpartí. Hrós á hrós ofan. vísir/stefán
Gunnar Hansson og Davíð Óskar Ólafsson tóku höndum saman og tylltu sér saman í leikstjórastól kvikmyndarinnar Bakk, sem frumsýnd var í vikunni.

Myndin hefur fengið vægast sagt góða dóma og komu téðir dómar þeim hreint út sagt í galopna skjöldu.

„Ég vissi ekkert hvernig ég átti að taka þessu, var fólk kannski bara að vera kurteist?“ segir Davíð Óskar og skellir upp úr. Hann segir viðbrögðin hafa verið hreint ótrúleg.

„Ég tek undir með Davíð, ég vissi ekkert við hverju maður átti að búast. En einhver sagði mér svo að stemningin í partíinu myndi segja manni satt, og hún var virkilega góð og fólk tilbúið að fara út í smáatriðin sem því líkaði í myndinni,“ bætir Gunnar við en Gunnar skrifaði handritið og lék aðalhlutverkið í myndinni.

„Ég ætlaði upphaflega bara að skrifa skemmtilegt hlutverk fyrir mig. Mig langaði að gera svona karakter, sem fólk tengir við. Sýna svolítið að við erum bæði góð og vond, og okkur þykir við sjaldnast vera vondi gæinn,“ segir Gunnar. Hann er gríðarlega sáttur með frumraun sína í leikstjórastólnum og kepptust þeir félagarnir við að lofsama hvor annan. „Mér finnst við hafa náð að bæta hvor annan upp á verulega skemmtilegan hátt,“ skaut hann að.

Á milli þess sem þeir skiptust á blíðuhótum dásömuðu þeir restina af hópnum og ekki hvað síst Víking Kristjánsson og Sögu Garðarsdóttur, sem einnig fara með stórar rullur í myndinni. „Saga var stundum svolítið á reiki, en gríðarlega æst í að gera betur. Við þurftum stundum að stoppa hana á fluginu og benda henni á að hún væri komin með efni í aðra mynd,“ segir Davíð sposkur.

Þegar tvíeykið er innt eftir frægð og frama segja þeir allt slíkt lítið annað en plús, markmið myndarinnar hafi verið að fá Íslendinga í kvikmyndahús þar sem þeir gætu átt góða, létta stund yfir skemmtilegri mynd. „Og reyndar er mér einhvern veginn nákvæmlega sama hvernig týpa af mynd þetta er, þetta snýst allt um að tengjast áhorfandanum, snerta við honum og miðað við viðbrögðin sem við höfum fengið, held ég að okkur hafi tekist ætlunarverkið,“ segir Gunnar í lokin kampakátur. Hvorugur útilokaði frekari setu í leikstjórastólum framtíðarinnar, svo spennandi verður að fylgjast með hvað kemur næst.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.