Fótbolti

Birkir Bjarnason skoraði í útisigri Basel | Sjáðu markið

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Birkir Bjarnason var góður í kvöld.
Birkir Bjarnason var góður í kvöld. vísir/getty
Birkir Bjarnason var á skotskónum fyrir svissnesku meistarana í Basel þegar þeir unnu útisigur, 2-1, gegn Fiorentina í Evrópudeildinni í kvöld.

Nikola Kalinic kom heimamönnum yfir á fjórðu mínútu, 1-0, en þeir misstu svo mann af velli á 66. mínútu og sóttu gestirnir stíft eftir það.

Birkir Bjarnason, sem gekk í raðir Basel frá Pescara í sumar, skoraði jöfnunarmarkið með föstu skoti á nærstöngina, 1-1.

Markvörður Fiorentina varði reyndar skotið í stöngina og inn, en Birkir var búinn að taka um höfuð sér, ósáttur með að nýta ekki færið, áður en boltinn skrúfaðist yfir marklínuna.

Birkir skoraði á 71. mínútu og átta mínútum síðar tryggði Mohamed El Nenny gestunum frá Sviss sigurinn með öðru marki liðsins, 2-1.

Tottenham lenti undir gegn Qarabag frá Aserbaídjan á heimavelli í kvöld þegar gestirnir fengu vítaspyrnu, 1-0.

Suðurkóreski framherjinn Heung-Min Son var þó betri en enginn og kom Totteham í 2-1 með mörkum á 28. og 30. mínútu. Son kom til Tottenham frá Leverkusen.

Fjórum mínútum fyrir leikslok gulltryggði Erik Lamela svo Tottenham sigurinn, 3-1.

Mark Birkis Bjarnason og öll úrslit kvöldsins má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×