Innlent

Meirihluti hlynntur því að Ísland taki við flóttafólki

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/epa
Meirihluti svarenda í könnun Maskínu er hlynntur því að Ísland taki við flóttamönnum frá Sýrlandi á næstu mánuðum, eða á bilinu 56-57 prósent, og 22 prósent eru andvíg því. Konur eru hlynntari því en karlar að taka við flóttafólki og yngri svarendur mun hlynntari því en þeir sem eldri eru.

Í könnuninni kemur fram að Reykvíkingar vilji frekar taka á móti flóttafólki og þeir sem yngri eru eru mun hlynntari því en hinir eldri. Þá eru þeir sem hafa lokið háskólaprófi hlynntari því en þeir sem hafa styttri skólagöngu að baki og þeir sem hafa litlar eða engar áhyggjur af fjölda innflytjenda á Íslandi eru hlynntari því en þeir sem hafa einhverjar áhyggjur.

Munur eftir stjórnmálaskoðunum

Þá er verulegur munur á svörum fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokk það styður. Kjósendur Vinstri grænna eru hlynntastir því að Ísland taki við flóttamönnum frá Sýrlandi, eða 70 prósent. Kjósendur Samfylkingar og Pírata koma þar á eftir, en 66-68 prósent þeirra eru því hlynntir. Þá eru einungis 22 prósent kjósenda Framsóknarflokks hlynntir því að Ísland taki við sýrlenskum flóttamönnum og um 38 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks.



100 flóttamenn á næstu tveimur árum

Svarendur voru spurðir hversu mörgum flóttamönnum frá Sýrlandi Ísland eigi að taka á móti á næstu tveimur árum. Einn af hverjum fjórum vill ekki taka á móti neinum flóttamönnum frá Sýrlandi, en álíka stór hópur vill taka á móti hundrað flóttamönnum eða færri. Ef horft er til miðgildisins má segja að Íslendingar vilji að jafnaði taka á móti hundrað flóttamönnum frá Sýrlandi.

Könnunin fór fram dagana 4. til 15. september. Hún var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu sem er byggð á slembiúrtaki úr Þjóðskrá og nær til fólks af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára af öllu landenu. Svarendur voru 747.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×