Erlent

Andreas Lubitz var „mjög skemmtilegur ungur maður“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Andreas Lubitz, aðstoðarflugmaður hjá Germanwings.
Andreas Lubitz, aðstoðarflugmaður hjá Germanwings. Vísir/AFP
Andreas Lubitz, aðstoðarflugmaðurinn sem talið er að hafi flogið vél Germanwings viljandi á fjallgarð í frönsku Ölpunum á þriðjudag, var indæll ungur maður.

Þetta segir Peter Ruecker, flugmaður, sem var með Lubitz í flugklúbbi í heimabæ aðstoðarflugmannsins Montabaur.

„Hann var mjög skemmtilegur en stundum var hann svolítið þögull. Hann var bara eins og hver annar strákur hérna,“ sagði Ruecker í samtali við Reuters.

Hann sagðist orðlaus yfir því að Lubitz hafi viljandi flogið á fjallgarðinn.

„Ég þekki Andreas og þetta er mér óskiljanlegt.“

Getur ekki ímyndað sér að Lubitz hafi gert þetta viljandi

Annar flugmaður, Klaus Radke, kynntist Lubitz síðasta haust.

„Hann kom vel fyrir, var indæll, kurteis og mjög skemmtilegur ungur maður,“ sagði Radke í samtali við Reuters.

Hann sagðist ekki geta ímyndað sér að Lubitz hafi ætlað sér að fljúga á fjallið.

„Málið er enn til rannsóknar svo ég bið fólk um að hugsa sig um áður en það dregur endanlegar ályktanir.“

Hafði áhuga á raftónlist, diskói og keilu

Búið er að loka Facebook-reikningi Lubitz. Í frétt Guardian segir að reikningurinn hafi bent til þess að um „venjulegan“ ungan mann hafi verið að ræða, með áhuga á raftónlist, diskói og keilu.

Hann á að hafa líkað við síður Lufthansa og LFT Bremen, eins af fimm flugskólum Lufthansa og þar sem hann stundaði sjálfur nám.

Lubitz virðist hafa umgengst flesta vini sína í bænum Koblenz. Á síðu sinni hlekkjar hann inn á síðu klifurveggs í nálægu skóglendi, veitingastaðar Burger King, keilusalsins Pinup og næturklúbbsins Agostea Nachtarena í Koblenz.

Tilgangurinn að granda flugvélinni

Flugstjóri í fluginu yfirgaf flugstjórnarklefann til að fara á salernið en þá læsti Lubitz klefanum, hægði á vélinni og setti hana í dýfu.

Á hljóðupptökum má heyra flugstjórann biðja flugmanninn um að hleypa sér inn en honum er aldrei svarað.

Saksóknari segir líklegustu tilgátuna vera að aðstoðarflugmaðurinn hafi gert þetta viljandi. Tilgangurinn hafi verið að granda flugvélinni en 150 manns létust í flugslysinu.


Tengdar fréttir

Gríðarleg sorg vegna voðaverks flugmannsins

Saksóknari í Frakklandi segir ekki hægt að tala um sjálfsvíg flugmannsins. Hann hafi myrt 149 manns. Gríðarleg sorg í heimabæ 16 framhaldsskólanema í Þýskalandi sem fórust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×