Körfubolti

Helena: Tölurnar gefa ekki rétta mynd af leiknum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Liðsmynd eftir leikinn í gær.
Liðsmynd eftir leikinn í gær. vísir
„Þetta var og stórt tap og gefur kannski ekki alveg rétta mynd af leiknum,“ segir Helena Sverrisdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í körfubolta sem tapaði fyrir Ungverjum í undankeppni EM í gærkvöldi, 72-50. Helena var stigahæst í liði Íslendinga með 16 stig.

„Það munaði aðeins tíu stigum í fjórða leikhlutanum og fimm mínútur eftir. Við vorum búnar að sýna frábæra baráttu en hættum síðan að hitta í restina og þær setja nokkur skot og því fór þetta upp í aðeins og mikinn mun.“

Helena vissi vel að leikurinn yrði mjög erfiður.

„Það tekur mjög mikið á að vera alltaf með einhvern í sér í leiknum og er ekki alveg sátt með þriggja stiga skotin mín í leiknum. Vonandi laga ég það fyrir næsta leik.“

Íslenska landsliðið hefur ekki spilað svona stóran mótsleik í sex ár.

„Þetta er auðvitað allt annað og þær eru með mjög gott lið og leikmenn sem eru að spila í hæsta gæðaflokki. Mér fannst við koma okkur sjálfum mjög mikið á óvart og byrjuðum leikinn stórkostlega vel. Það tekur síðan á að vera spila við svona harða vörn allan tímann og þá fóru skotin að hætta að detta.“

Hún segir að ef liðið hefði hitt aðeins betur hefði það verið inn í leiknum mun lengur. Helena skoraði sitt þúsundasta stig fyrir íslenska landsliðið í gær.

„Það var rosalega gaman að ná þeim áfanga,“ segir Helena en næsti leikur er gegn Slóvakíu.

„Á pappír er það lið ennþá sterkara en það ungverska og við þurfum aldeilis að vera tilbúnar.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×