Erlent

Aukið samstarf við Arabaríki til að berjast gegn hryðjuverkum

Bjarki Ármannsson skrifar
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB.
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB. Vísir/AFP
Evrópusambandið (ESB) boðar samvinnuverkefni með múslimaríkjum í kjölfar árásanna á húsnæði tímaritsins Charlie Hebdo í París. Meðal annars er stefnt að því að bæta arabískukunnáttu Evrópubúa.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, greindi frá þessu í tilkynningu til fjölmiðla í Brussel í dag. Hún gaf þó lítið upp um það hvað nákvæmlega mun felast í aðgerðunum, sem eiga að koma í veg fyrir frekari hryðjuverk með því að auka samvinnu við þau ríki þar sem múslimar eru í meirihluta.

BBC greinir frá. Sautján manns létu lífið í tveimur árásunum í París fyrr í mánuðinum en árásarmennirnir tengdust samtökum í Miðausturlöndum. Með voðaverkunum sögðust þeir vera að „hefna“ fyrir skopteikningar Charlie Hebdo af Múhameð, helsta spámanni íslamstrúar.

Sjá einnig: Reyna að fá eintök af Charlie Hebdo í Eymundsson

Mogherini sagði að verkefnum yrði hrint af stað á næstunni í samstarfi við Tyrkland, Egyptaland, Jemen, Alsír og Persaflóaríkin til að auka upplýsingaflæði milli landa og leggja enn frekari áherslu á að koma í veg fyrir fjárveitingar til hryðjuverkasamtaka.

„Ég vil bæta úr samskiptum okkar við arabískumælandi fólk nú þegar, bæði innan ESB og utan,“ sagði hún um tungumálaframtakið fyrirhugaða. „Við þurfum að auka færni okkar í að tala og skrifa arabísku og að hlusta á þau skilaboð sem berast úr arabísku samfélagi.“


Tengdar fréttir

Reyndu að kveikja í skrifstofum dagblaðs

Lögregla í Þýskalandi hefur handtekið tvo menn sem reyndu að kveikja í skrifstofum dagblaðs sem hefur endurbirt myndir frá Charlie Hebdo.

Hert öryggisgæsla í Frakklandi

Her- og lögreglumenn verða sýnilegri í Frakklandi og munu koma til með að gæta mögulegra skotmarka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×