Körfubolti

Westbrook fór á kostum í sigri á Dallas | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Russell Westbrook fór á kostum.
Russell Westbrook fór á kostum. vísir/epa
NBA-deildin í körfubolta hófst aftur í nótt eftir vikulangt hlé vegna stjörnuleiksins sem fram fór síðasta sunnudag. Tveir leikir voru á dagskrá.

Oklahoma City Thunder vann öruggan heimasigur á Dallas Mavericks, 104-89, þar sem leikstjórnandinn Russell Westbrook fór á kostum.

Westbrook skoraði 34 stig í leiknum, gaf 10 stoðsendingar og tók 5 fráköst. Hann hitti úr 9 skotum af 17 úr teignum og öllum 14 vítaskotunum sínum.

Sjáðu Russell Westbrook í ham:


Serge Ibaka virðist einnig vera að vakna til lífsins, en hann hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína á tímabilinu.

Ibaka skoraði 21 stig í leiknum og tók 22 fráköst, en hann hefur ekki tekið fleiri fráköst í einum leik á tímabilinu. Þá skilaði Kevin Durant 12 stigum, 6 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Með sigrinum komst Oklahoma-liðið upp í áttunda sætið í vestrinu, en það er með sama sigurhlutfall og Phoenix Suns. Ljóst er að liðin sem hafna í efstu sætum vestursins verða ekkert alltof ánægð með að mæta OKC í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Serge Ibaka með 22 fráköst:


Los Angeles Clippers vann svo meistara San Antonio Spurs á heimavelli, 119-115, þar sem gamli maðurinn Tim Duncan var í miklu stuði fyrir tapliðið.

Duncan skoraði 30 stig, tók 11 fráköst og hitti úr 12 af 14 skotum sínum í teignum en það dugði ekki til. Hann tók meira að segja eitt þriggja stiga skot og sökkti því niður með stæl.

Mikið og gott liðsframlag skilaði Clippers góðum sigri, en fjórir af fimm í byrjunarliðinu skoruðu yfir tíu stig sem og tveir varamenn.

DeAndre Jordan skoraði 26 stig og tók 18 fráköst. Hann var erfiður viðureignar undir körfunni og fékk heil 28 vítaskot. Hann nýtti þó aðeins tíu af þeim.

Chris Paul bætti við 22 stigum og 16 stoðsendingum og Jamal Crawford kom sterkur inn af bekknum og skoraði 26 stig. Clippers er í fimmta sæti vesturdeildarinnar.

Tim Duncan með hamar á DeAndre Jordan: DeAndre Jordan getur líka troðið yfir menn:
NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×