Það er margt forvitnilegt að líta í hirslum Tollstjóra. Þurrkaður krókódílshaus er þar á meðal. Hausinn, einn og hálfur lítri af andablóði og tugir hrárra eggja voru meðal þess sem íslenskir tollverðir stöðvuðu á landamærunum á síðasta ári, 2014. Sá sem ferðaðist með krókódílshausinn framvísaði fölsuðu leyfi til útflutnings frá Taílandi. Snorri Olsen tollstjóri segir ferðamenn á framandi slóðum í sakleysi sínu halda að það sé í lagi að flytja inn gripi sem þessa. Þeir geti hins vegar lent í miklum ógöngum. „Auðvitað geta menn í sakleysi sínu haldið að þetta sé í lagi, þekkja ekki reglurnar og smygla svona hlutum. Við viljum hins vegar vekja fólk til umhugsunar um að fólk getur lent í verulegum ógöngum, eins og fréttnæmt varð til dæmis þegar Íslendingur keypti fornmun í Tyrklandi.“
Atvikið sem Snorri vísar í varðar Davíð Örn Bjarnason sem var vorið 2013 dæmdur í eins árs og tíu daga skilorðsbundið fangelsi í Tyrklandi. Dóminn hlaut hann fyrir að hafa ætlað að fara með marmarastein úr landi, en steinninn var sagður fornminjar.
Hvað varðar krókódílshausinn fellur hann undir svokallaðan CITES-samning um alþjóðaverslun með plöntur og dýr í útrýmingarhættu.
Brot gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Innlent