Maðurinn réttir þeim síðan spjaldtölvu og biður fólk um að þýða skilaboð sem hann hefur fengið send á Facebook. Þau eru á litháísku og af afar rasískum toga. Samkennd fólksins sem beðið er um að þýða skilaboðin leynir sér ekki. Myndbandið má sjá hér að neðan.
Tilraunin var gerð af fólki sem stendur á bak við heimasíðuna svetimageda.lt en hún er öll á litháísku svo blaðamaður botnar lítið í henni. Síðan er nokkurs konar handbók um hvernig bregðast skuli við hatursáróðri gagnvart fólki af öðrum kynþætti, kynhneigð og fleiru í slíkum dúr.
Hatursorðræða hefur verið talsvert í umræðunni hér á landi síðustu daga en í dag kærðu Samtökin ´78 tíu einstaklinga fyrir hatursorðræðu í garð hinsegin fólks.
Verkefnið sem stendur að baki myndbandinu er meðal annars styrkt af Íslandi í gegnum Uppbyggingarsjóð EES. Með sjóðnum styrkja Ísland, Liechtenstein og Noregur verkefni í sextán löndum Evrópu sem hafa það markmið að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði.