Innlent

Fær að vera áfram hjá barnabörnunum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kristrún Elsa Harðardóttir fékk úrskurði Útlendingastofnunar um að synja konu um dvalarleyfi hnekkt.
Kristrún Elsa Harðardóttir fékk úrskurði Útlendingastofnunar um að synja konu um dvalarleyfi hnekkt. MYND/DIKALÖGMENN
Kærunefnd útlendingamála sneri í síðustu viku við úrskurði Útlendingastofnunar um að synja úsbekskri konu um endurnýjun dvalarleyfis hérlendis.

Konunni var upphaflega úthlutað dvalarleyfi til tveggja ára í þeim sérstaka tilgangi að sinna dóttur hennar og þremur barnabörnum.

Dóttir konunnar kom til Íslands sem flóttamaður með manni sínum og tveimur börnum. Þau eignuðust þriðja barn sitt hér. Eftir langa dvöl hér var þeim veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Maðurinn beitti hana ofbeldi og kærði hún manninn sem flúði í kjölfarið land.

Konan sótti um endurnýjun dvalarleyfis að tveimur árum liðnum en Útlendingastofnun mat tilganginn ekki lengur til staðar. Konan fékk ekki leyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland.

Kærunefndin hefur nú snúið málinu við á grundvelli nýrra sjónarmiða við úthlutun dvalarleyfis sem sett voru fram í mars. Í þessum sjónarmiðum skal miða veitingu slíks leyfis við tiltekin sjónarmið og þar ber hæst fjölskyldutengsl.

„Í raun er kærunefnd útlendingamála að vísa til þessara nýju leiðbeinandi sjónarmiða en ég hef ekki verið með mál áður þar sem þessar reglur gera þetta mögulegt,“ segir Kristrún Elsa Harðardóttir, lögmaður konunnar. Hún bætir við að þarna sé mögulega að skapast opnari grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×