Lífið

Örvænting greip um sig í Bieber-forsölunni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Justin Bieber kemur fram 9. september í Kórnum.
Justin Bieber kemur fram 9. september í Kórnum. vísir
Forsala WOW Air, Pepsi Max og Senu á tónleika Justin Bieber hófst klukkan tíu í dag. Íslendingar höfðu áður skráð sig á póstlista hjá umræddum fyrirtækjum og var það nauðsynlegt til að geta keypt miða.

Klukkan tíu í morgun var síðan sendur út hlekkur á þá aðila sem voru skráðir á póstlista fyrirtækjanna. Á Facebook-síðu Pepsi-Max mátti sjá nokkra Bieber-þyrsta aðdáendur heldur svekkta þar sem þeir höfðu ekki fengið neinn hlekk sendan korter yfir tíu í morgun.

Blaðamaður Vísis skráði sig inn í rafræna biðröð hjá forsölu Senu klukkan 10:14 í morgun og var hann þá númer 2274 í röðinni. Sá náði aftur á móti að kaupa tvo miða.

„Því miður þá tók smá tíma að senda á öll þessi netföng,“ segir Sandra Björg Helgadóttir, vörumerkjastjóri Pepsi-Max, á Íslandi. Ölgerðin sendi 6000 tölvupósta á þá aðila sem skráðir voru á póstlistann hjá fyrirtækinu.

„Klukkan tíu var ýtt á send og þetta hefur greinilega tekið lengri tíma en við bjuggumst við. Síðustu aðilarnir voru að fá hlekkinn sendan tuttugu mínútur yfir tíu. Okkur þykir þetta mjög leiðinlegt.“ Uppselt var í forsölu Pepsi-Max rétt fyrir klukkan ellefu í morgun.

Formleg miðasala hefst á morgun klukkan tíu og fer hún fram á tix.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.