Bíó og sjónvarp

Staðfest að Daniel Craig leikur stormsveitarmann í The Force Awakens

Birgir Olgeirsson skrifar
Daniel Craig
Daniel Craig Vísir/getty images
Breski leikarinn Daniel Craig, sem er hvað þekktastur fyrir að leika njósnara hennar hátignar James Bond, fer með lítið hlutverk í sjöundu Stjörnustríðsmyndinni, The Force Awakens.

Þeir sem ekki hafa séð myndina ættu að láta staðar numið við lestur fréttarinnar því upplýsingar í henni gætu spillt fyrir áhorfi þeirra sem ekkert vilja vita um söguþráð hennar. 

Fyrr á þessu ári hafði verið greint frá því að Craig hefði beðið um lítið aukahlutverk í myndinni  og sagði leikarinn Simon Pegg frá því, sem leikur geimveru í The Force Awakens, að Craig myndi leika stormsveitarmann.  

Craig neitaði þessu staðfastlega og sagðist ekki hafa hugmynd um að Pegg væri að tala um og gekk svo langt að segja þessi orð landa síns vera algjört kjaftæði.   Nú greina miðlar ytra frá því að Craig hefði leikið lítið hlutverk í myndinni. 

Sjálfur hafði hann verið við tökur á nýjustu Bond myndinni Spectre í Pinewood-kvikmyndaverinu í Lundúnum en The Force Awakens var tekin upp á sama tíma í kvikmyndaverinu.   

Aftur eru þeir sem ekki hafa séð myndina varaðir við, ekki lesa lengra ef þú vilt ekkert vita um söguþráð hennar.

Frá frumsýningunni í London.vísir/epa
Ein af aðalsöguhetjum myndarinnar Rey, leikin af Daisy Ridley, er fangi illmennanna á einum tímapunkti en hún reynir að beita hugarafli gegn einum af stormsveitarmönnunum til að fá hann til að leysa sig úr haldi. Er umræddur stormsveitarmaður leikinn af Daniel Craig samkvæmt frásögnum miðla ytra. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×