Skoðun

Breyttar áherslur í námsmati og einkunnagjöf

Gylfi Jón Gylfason skrifar
Verkefni nemenda í grunn- og framhaldsskólum hafa breyst undanfarin ár. Nútíminn gerir stöðugt fjölbreyttari kröfur um þekkingu, leikni og hæfni sem hefur í för með sér breytt námsmat. Það færist frá áherslu á staðreyndaupptalningu yfir í að meta hæfni til að finna upplýsingar og vinna með þær í námi og starfi. Til að grunn- og framhaldsskólar geti tekist á við þessar breyttu áherslur var ákveðið að breyta námsmatskerfinu á svipaðan hátt og nágrannaþjóðir okkar hafa gert.

Nýtt námsmat kynnt

Upphafið að nýju námsmatskerfi á Íslandi má rekja til ársins 2011 þegar ný aðalnámskrá grunnskóla var gefin út, en í almenna hluta hennar segir frá nýju námsmatskerfi og að einkunnagjöf skyldi breyta í bókstafaeinkunnir. Innleiðingarferlið hófst og nýtt kerfi kynnt fyrir kennurum, samtökum foreldra og hagsmunaaðilum. Haldnir voru tæplega 40 kynningarfundir um land allt frá miðju ári 2011 til maí 2012.

Betra samræmi í einkunnagjöf

Greinasvið aðalnámskrár grunnskóla voru gefin út í mars 2013 en þar er fjallað um einstakar námsgreinar í grunnskólum og birtur nýr einkunnakvarði. Breytingin er sú að hverjum bókstaf fylgir lýsing á hæfni nemenda sem er sambærileg milli skóla. Markmiðið er að samræma betur einkunnagjöf á milli skóla og að einkunnir skýri betur hæfni nemenda.

Vinnustofur og kynningarfundir

Sem dæmi um það kynningarstarf sem fór fram er landshlutanámskeiðið Leiðtogi í heimabyggð, samstarfsverkefni hins opinbera og stéttarfélaga, sem haldið var í mars 2013. Markmið þess var að kynna innleiðingu nýrrar aðalnámskrár og í apríl birti mennta- og menningarráðuneytið innleiðingaráætlun. Átta vinnustofur um breytingastjórnun í tengslum við ný ákvæði aðalnámskrár voru haldnar um allt land og um haustið var staðið fyrir kynningu á haustþingum kennara. Sama ár héldu Heimili og skóli, landssamtök foreldra, kynningarfundi víðs vegar um land þar sem námskráin og þær breytingar sem snúa að foreldrum voru kynntar.

Tækifæri til athugasemda

Á haustmánuðum voru haldin málþing, fyrir kennara og skólafólk á leik,- grunn- og framhaldsskólastigi, á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Skólafólk víða um land fylgdist með fyrirlestrum og hélt málstofur í heimabyggð í kjölfarið. Auk þessa var hagsmunaaðilum sent bréf þar sem mögulegar breytingar á námsmati grunnskóla voru kynntar og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir. Alls bárust 15 umsagnir sem tóku afstöðu til þeirra breytinga sem kynntar höfðu verið. Rúmu ári síðar sendi mennta- og menningarmálaráðuneyti bréf til hagsmunaaðila þegar það hafði farið yfir umsagnir og tekið ákvarðanir um breytingar á einkunnagjöf.

Stuðningur við breytingar

Til að gæta hagsmuna nemenda og styðja við skóla, hafa Menntamálastofnun og mennta- og menningarmálaráðuneytið unnið að ýmsum verkefnum. Í lok árs 2014 var 30 milljóna króna styrk úthlutað til sveitarfélaga og fékk hvert þeirra úthlutað í samræmi við nemendafjölda. Styrkurinn var ætlaður til að sveitarfélög gætu tekið upp upplýsingakerfi sem styðja við innleiðinguna. Þá hefur verið unnið að þróun á rafrænu vitnisburðarskírteini sem tengir saman einkunnir og matsviðmið, sem tekið verður í notkun vorið 2016 þegar allir skólar taka upp nýtt einkunnakerfi. Mun það veita betri upplýsingar um hvar nemandi stendur í náminu, auk þess sem framhaldsskólar geta nýtt skírteinið við innritun. Eins hefur verið opnaður kynningarvefur þar sem veittar eru upplýsingar um nýtt námsmat.

Breyting á hugsunarhætti

Það má því segja að unnið hefur verið ötullega að kynningu á nýjum einkunnakvarða og námsmati. Menntamálastofnun telur það afar mikilvægt að veita greinar­góðar upplýsingar og viðhalda öflugu kynningarstarfi fyrir alla þá sem koma að skólastarfi og námi barnanna okkar. Breytingarnar krefjast breytts hugsunarháttar hvað varðar námsmat að því leyti að nú byggir námsmat á því hvernig nemandinn nýtir það sem hann hefur lært frekar en á því hvað hann getur munað.




Skoðun

Sjá meira


×