Handbolti

Lazarov með tíu mörk í fyrsta leik – rautt á Rutenka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Siarhei Rutenka fékk rautt fyrir þetta brot.
Siarhei Rutenka fékk rautt fyrir þetta brot. Vísir/AFP
Makedónía, Spánn og Slóvenía unnu öll fyrsta leik sinn á HM í handbolta í Katar en heimsmeistaramótið er nú komið í fullan gang.

Kiril Lazarov skoraði 10 mörk fyrir Makedóníu þegar liðið vann átta marka sigur á Túnis, 33-25, í fyrsta leik sínum á HM í handbolta. Makedónía var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18-14.

Makedóníumenn breyttu stöðunni úr 25-21 í 30-21 með því að skora fimm mörk um miðjan seinni hálfleikinn.

Kiril Lazarov skoraði mörkin sín 10 úr 17 skotum en þeir Filip Mirkulovski og Dejan Manaskov skoruðu báðir sex mörk fyrir lið Makedóníu. Issam Tej var markahæstur hjá Túnis með sex mörk.

Heimsmeistarar Spánverja unnu á sama tíma fimm marka sigur á Hvít-Rússum, 38-33, en Hvít-Rússarnir stóðu í spænska liðinu þrátt fyrir að missa stjörnuleikmann sinn Siarhei Rutenka útaf með rautt spjald snemma leiks.

Spánverjar voru 21-17 yfir í hálfleik en Hvít-Rússar náðu að minnka muninn í eitt mark, 32-21, þegar níu mínútur voru eftir af leiknum. Spænska liðið vann hinsvegar lokamínútur leiksins 6-2 og vann því nokkuð sannfærandi sigur á endanum.

Jorge Maqueda og Julen Aguinagalde skoruðu báðir sex mörk fyrir spænska liðið en Aliaksandr Tsitou og Siarhei Shylovich voru markahæstir hjá Hvít-Rússum með fimm mörk hvor.

Dragan Gajic skoraði níu mörk þegar Slóvenía vann þrettán marka sigur á Síle, 36-23, en liðin eru í A-riðli. Slóvenar voru 16-14 yfir í hálfleik en gerðu út um leikinn með því að skora átta fyrstu mörkin í seinni hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×