Lífið

Brasaður þorskhaus og lambabeikon

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Albert Muñoz, Inga María Backman, Elma Backman, Ágústa Backman og Gísli Matthías Auðunsson eru eigendur veitingastaðarins.
Albert Muñoz, Inga María Backman, Elma Backman, Ágústa Backman og Gísli Matthías Auðunsson eru eigendur veitingastaðarins. Vísir/Pjetur
„Við höfum meðal annars komist að því að árið 1200 voru Íslendingar byrjaðir að nota engifer mikið. Þá var það bara flutt hingað inn ásamt karríi, kanil og fleiru. Tómaturinn aftur á móti kom fyrst til Íslands í kringum 1940-1950,“ segir Gísli Matthías Auðunsson, matreiðslumeistari á Mat og drykk, nýjum veitingastað sem verður opnaður á morgun.

Áhersla verður lögð á íslenska matarmenningu og er nafn staðarins vísun í bókina Matur og drykkur eftir Helgu Sigurðardóttur sem gefin var út árið 1947. „Hún er náttúrulega aðal innblásturinn og ástæðan fyrir því að við fengum hugmyndina,“ segir Gísli og bætir við: „Ég hef verið að spá að ef Helga væri á lífi í dag og væri matreiðslumaður þá held ég að hún myndi opna svona svipaðan veitingastað og við erum að gera,“ segir hann léttur í bragði.

Matseðillinn samanstendur af klassískum réttum á borð við plokkfisk en einnig ævintýralegum og öðru vísi réttum á borð við brasaðan þorskhaus.

„Við verðum líka með mikið af áhugaverðum íslenskum kokteilum. Undirstaðan í einum er hvannarótarbrennivín sem við gerum sjálf og í öðrum viskí kryddað með heimagerðu lambabeikoni.“

Eigendur staðarins ásamt Gísla eru þau Albert Muñoz, Inga María Backman, Ágústa Backman og Elma Backman, yfirhönnuður staðarins. Matur og drykkur verður opnaður á morgun og er til húsa á Grandagarði 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×