Fótbolti

Jón Daði búinn að gera tveggja og hálfs árs samning við Kaiserslautern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. Vísir/AFP
Íslenski landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson gengur til liðs við þýska b-deildarliðið Kaiserslautern í síðasta lagi um næstu áramót en Kaiserslautern tilkynnti um samning félagins og Jóns Daða á heimasíðu sinni í kvöld.

Kaiserslautern hefur verið að reyna að kaupa Jón Daða frá norska úrvalsdeildarliðinu Viking í nokkurn tíma en Norðmennirnir hafa til þessa hafnað tilboðum þýska liðsins. Samningur Jóns Daða við Viking rennur út 31. desember 2015.

Kaiserslautern hefur sent norska liðinu nýtt tilboð og það gæti því farið svo að Jón Daði spili með þýska liðinu frá fyrsta leik tímabilsins.

Kaiserslautern gæti samt þurft að bíða eftir Selfyssingnum þangað til eftir vetrarfríið en samningur Jóns Daða og Kaiserslautern er að minnsta kosti frá 1. janúar 2016 til júní 2015.

„Jón Daði Böðvarsson er fjölhæfur og duglegur sóknarmaður sem getur spilað bæði sem kantmaður sem og sem fremsti maður. Hann hefur þegar öðlast alþjóðlega reynslu með sterku íslensku landsliði og nú vill hann taka skrefið frá Noregi til Þýskalands. Við yrðum mjög ánægðir ef hann kæmi strax í þessum félagsskiptaglugga. Við höfum sent Viking mjög gott tilboð sem mun líka taka mið af frammistöðu leikmannsins. Nú er boltinn hjá Viking," sagði Markus Schupp, íþróttastjóri Kaiserslautern, á heimasíðu félagsins í dag.

Jón Daði Böðvarsson hefur spilað vel með Viking og er með 11 mörk og 6 stoðsendingar í síðustu fimmtán mótsleikjum með Viking.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×