Emil Atlason gæti verið á leið í Fylki en hann hefur átt í viðræðum við félagið. Þetta staðfestir Ólafur Geir Magnússon, stjórnarmaður í Fylki við Vísi.
„Við höfum tekið púlsinn á Emil og skoðað hann. En það er ekkert komið á hreint með hann,“ sagði Ólafur Geir við Vísi í dag. „Emil er frábær leikmaður og sjálfsagt eru mörg lið að skoða hann.“
Emil hefur leikið allan sinn meistaraflokksferil með KR en í fyrra skoraði hann tvö mörk í fjórtán leikjum. Hann var sagður á leið frá félaginu síðastliðið sumar en fór ekki fyrr en hann var lánaður til SC Preußen Münster í þýsku C-deildinni.
Emil, sem skoraði átta mörk í tólf leikjum með U-21 landsliði Íslands, hefur samkvæmt heimildum Vísis einnig átt í viðræðum við ÍA og Val. Þó þykir líklegast að hann endi í Árbænum.
„Það ríkir engin örvænting í Árbænum og við erum að skoða okkar mál í rólegheitum,“ ítrekaði Ólafur Geir.

