Hrafn Steinarsson, hagfræðingur og sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir fjárfesta vera að nýta sér hærri vexti sem bjóðist hér á landi miðað við í nágrannalöndum.
Fjárfestarnir hafi fjármagnað kaupin með því að koma með nýtt fé til landsins á álandsgengi. Þannig komist fjárfestarnir út með féð á ný óháð því hvort liðkað verði frekar fyrir gjaldeyrishöftum eða ekki.
Hrafn bendir á að efnahagsumhverfið á Íslandi sé fremur hagfellt sem skýri áhuga erlendra fjárfesta. „Ef þú horfir á hagvöxt, atvinnuleysi, viðskiptaafgang og ríkisfjármál – það er sama hvert þú lítur – þetta eru allt frekar jákvæðar tölur samanborið við önnur lönd,“ segir hann.
Þá hafi Seðlabankinn brugðist við auknu flæði gjaldeyris inn í landið vegna vaxtamunarviðskipta og auknum tekjum af ferðamönnum með miklum gjaldeyrisinngripum í júlí.
„Seðlabankinn er að leggjast gegn of hraðri og of mikilli styrkingu krónunnar,“ segir Hrafn.
Hrafn telur aukin viðskipti erlendra aðila ekki vera áhyggjuefni eins og er enda séu þau langt frá því að vera í sama mæli og fyrir bankahrun.

„En ef þessi viðskipti fara að verða allsráðandi á markaðnum þá er það óheppilegt. Íslenski skuldabréfamarkaðurinn er ekki það stór eða djúpur. En það er ekkert sem bendir til þess eins og er,“ segir Hrafn.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað þar sem Seðlabankinn hygðist kynna vaxtaákvörðun í næstu viku.