Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna ISIS hafa komið upp vígi og starfrækja æfingabúðir fyrir hryðjuverkamenn í Evrópu. Þetta kemur fram í grein breska blaðsins Sunday Mirror.
Í frétt blaðsins segir að samtökin hafi komið upp æfingabúðum í bosníska bænum Osve. Bærinn er mjög afskekktur, um hundrað kílómetrum norður af höfuðborginni Sarajevo.
Öfgasinnaðir íslamistar hafi keypt jarðir í kringum bæinn sem eftirlitsaðilar telja að séu notaðar undir æfingabúðir fyrir liðsmenn ISIS. Þar séu þeir búnir undir það að framkvæma hryðjuverkaárásir í Evrópu.
Sunday Mirror greinir frá því að tólf liðsmenn ISIS, sem hafa notið þjálfunar í Osve, hafa ferðast til Sýrlands á síðustu mánuðum.
Íbúar í Osve segja að oft og títt heyrist í byssuskotum frá jörðunum sem hafa verið keyptar upp á síðustu misserum. „Við heyrum reglulega í skotum frá skóglendinu þarna fyrir ofan. Það gerist í hverri viku,“ segir íbúi sem vilji ekki láta nafn síns getið.
Þá sé ýmislegt sem bendi til þess að ISIS-liðar hafi komið upp fleiri búðum í Bosníu. Guardian greinir frá því að öfgasinnuðum söfnuðum hafi fjölgað í héruðunum Gornja Maoca, Osve og Dubnica.
Ný skýrsla sýnir fram á að um tvö hundruð Bosníumenn hafi ferðast til Sýrlands á síðustu tveimur árum og að um fimmtíu hafi snúið aftur til Bosníu á liðnum vetri.
Liðsmenn ISIS starfrækja æfingabúðir í Evrópu
Atli Ísleifsson skrifar
